141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[15:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú neikvæða byggðaþróun sem átt hefur sér stað víða á landsbyggðinni síðustu tvo áratugina sé komin á mjög hættulegt stig á einstökum stöðum og svæðum. Við verðum að bregðast strax við, stjórnvöld í landinu verða að bregðast við.

Fyrir liggur skýrsla Byggðastofnunar um samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun. Þar eru skoðuð sérstaklega svæði sem byggja afkomu sína á landbúnaði og sjávarútvegi og önnur sem byggja á meiri fjölbreytileika í atvinnulífi. Sem betur fer er víða uppgangur á landsbyggðinni og tækifærin eru óteljandi ef rétt er á málum haldið. Samt sem áður eiga margar byggðir undir högg að sækja. Skýrt kemur fram í skýrslunni hve mikið samgöngubætur hafa að segja, ekki bara vegna jákvæðra áhrifa á búsetu heldur einnig fyrir atvinnulíf og ekki síst ferðaþjónustuna. Skýrasta dæmið um slíkt er svæði eins og sunnanverðir Vestfirðir og norðanverðar Strandir sem eiga allt sitt undir því að góðar samgöngubætur komist á.

Aldurssamsetning íbúa þar sem fólksfækkun hefur orðið er verulegt áhyggjuefni. Meðalaldurinn er orðinn hár og það fækkar að sama skapi í yngri árgöngum, sérstaklega í aldurshópnum 20–40 ára sem er barneignaraldur. Þar af leiðandi dragast útsvarstekjurnar saman í kjölfarið og erfiðara reynist að halda uppi góðri grunnþjónustu sem ýtir undir áframhaldandi fækkun íbúa. Skipting milli kynja á þessum svæðum er yfirleitt þannig að karlar eru fleiri en konur og það veit ekki á gott.

Nú koma margir eflaust til með að álykta sem svo að við þessu sé lítið að gera, byggðaþróunin annars staðar í veröldinni sé á sama veg. Ég tel vissulega að stjórnvöld geti ekki einhliða haft áhrif á íbúaþróun í landinu, þar hefur margt annað mikið að segja, en stjórnvöld hafa með aðgerðum og aðgerðaleysi svo sannarlega haft áhrif á byggðaþróun síðustu áratugina. Afleiðingin er mikil samþjöppun byggðar á suðvesturhorninu með tilheyrandi stofnkostnaði. Víða á landsbyggðinni standa eftir vannýtt opinber mannvirki og autt húsnæði sem selst ekki eða aðeins fyrir brot af raunvirði.

Þannig hefur margt landsbyggðarfólk þurft að fara frá eigum sínum eða fengið sáralítið fyrir ævisparnaðinn. Ég met það svo að ekki hafi verið rekin raunveruleg byggðastefna hér í gegnum árin heldur hafðar uppi handahófskenndar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að mæta aðsteðjandi vanda fólks og fyrirtækja hverju sinni, settir plástrar hér og þar sem ekki hafa byggst á að styrkja grunngerð samfélaganna til lengri tíma. Ótal greiningar og skýrslur liggja fyrir og ég efast ekki um góðan vilja margra ráðamanna í gegnum tíðina en orð og efndir hafa ekki alltaf haldist í hendur, því miður.

Hver kannast ekki við fyrirheit um jöfnun olíuverðs og húshitunar í landinu? Þetta er jú sameiginleg auðlind eins og fiskurinn í sjónum. Lengi hefur verið talað um jöfnun flutningskostnaðar og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, en ef það hefur gengið eftir er endalaus barátta við að halda störfunum inni í fjárlögum. Það er gömul saga og ný.

Dreifikerfi RÚV er til dæmis víða ekki í lagi og það vantar margt upp á að búsetuskilyrði séu jöfn í landinu. Skýrt hefur komið fram í greiningu að styrkja þurfi menntunarstig á landsbyggðinni og tek ég heils hugar undir það, en þá verður líka að standa vörð um þær menntastofnanir sem þar eru fyrir og útvista fleiri opinberum störfum út á land sem krefjast fjölbreytilegrar menntunar og þekkingar.

Atvinnumál, heilbrigðismál, samgöngur og menntun, allt eru þetta lykilþættir sem ráða ákvörðun um búsetu fólks. Bleiki fíllinn í umræðunni um stöðu landsbyggðarinnar í sjávarbyggðum er kvótakerfið sem og sú óvissa og óöryggi í búsetu sem fylgt hefur frjálsu framsali aflaheimilda í gegnum árin. Þetta hafa staðir eins og Vestmannaeyjar og Akranes, stór byggðarlög, þurft að reyna á eigin skinni.

Ég spyr hæstv. atvinnuvegaráðherra: Liggur fyrir greining stjórnvalda á því hvaða byggðir standa veikast í byggðalegu tilliti í dag? Ef svo er, hverjar eru þá byggðirnar og svæðin?

Hvaða byggðir af þeim sem háðastar eru sjávarútvegi eru í alvarlegum vanda? Hvaða áhrif hefur framsal aflaheimilda haft í því sambandi og hvaða úrræði eru möguleg í slíkum tilvikum?

Hvaða landbúnaðarsvæði og hvaða búgreinar standa hvað höllustum fæti í dag og hvar innan landbúnaðar og matvælaframleiðslu sjá menn helstu sóknarfærin? (Forseti hringir.) Er hægt að segja að unnið sé eftir skilvirkri byggðastefnu og hvað telur ráðherra byggðamála vænlegast til árangurs (Forseti hringir.) svo styrkja megi til framtíðar byggðir og sveitarfélög í erfiðri stöðu?

Hvað hyggjast (Forseti hringir.) stjórnvöld gera til að mæta bráðavanda sem blasir við þeim byggðum sem standa frammi fyrir mikilli óvissu og íbúafækkun?

Að lokum: Til hvaða aðgerða hafa stjórnvöld gripið eða hyggjast grípa á næstu mánuðum (Forseti hringir.) til að jafna búsetuskilyrði landsmanna?