141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

stjórn fiskveiða.

206. mál
[18:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar fyrst við erum hér aðeins tveir þingmenn í salnum að hlusta á ræðu hv. framsögumanns að tjá mig aðeins um frumvarpið þó að ég ætli ekki í ræðu.

Ég vil segja að ég skil mjög vel andann í frumvarpi hv. þingmanns og þau meginsjónarmið sem liggja til grundvallar, sem ég er sammála. Ég tel mjög þarft að taka frumvarp sem þetta til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins núna þegar útlit er fyrir að frumvarp ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni komi inn til þingsins og til átektar atvinnuveganefndar. Ég tel einmitt mjög þarft að þetta frumvarp liggi samhliða til umfjöllunar vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að fara yfir þau sjónarmið sem þingmaðurinn reifar sem lúta að jafnræðinu, atvinnufrelsinu og því hvernig arðurinn af þeirri mikilvægu auðlind er að skila sér og hvort hann skilar sér yfirleitt inn í samfélagið sjálft og til byggðanna. Ég tel mjög þarft að farið sé yfir þau grundvallarsjónarmið um leið og við fjöllum um stóra frumvarpið sem þó hefur ekki litið dagsins ljós enn þá.

Ég vil því þakka þingmanninum fyrir að halda a.m.k. því merki og þessari umræðu á lofti þó að útfærslan á hugmyndum hans sé eitthvað sem þurfi að ræða betur. Ég ætla ekki að úttala mig um það á þessu stigi máls hvort rétt eða eðlilegast sé að sveitarfélögin úthluti aflaheimildum með þeim hætti sem þingmaðurinn leggur til en finnst mér það fullkomlega skoðunarinnar virði.