143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og annar hv. þingmaður hér fyrr verður að gera það að umtalsefni að það setur slæman blett á störf þingsins að í stað þess að eiga efnislega umræðu við þingmenn grípur hæstv. forsætisráðherra ítrekað til þess að saka aðra þingmenn um ósannindi. Hálfu verra er það þegar í ljós kemur að sá sem í þeim deilum fer með rangt mál er hæstv. forsætisráðherra í ræðustól Alþingis.

Þetta gerðist síðast hér í gær þegar hann sagði að tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun barnabóta væru rangar getgátur hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Nú hefur komið fram að það sem hæstv. forsætisráðherra sagði þingheimi að væru rangar getgátur var formleg, skrifleg tillaga ríkisstjórnar hans sjálfs til fjárlaganefndar Alþingis, stíluð á formann hennar, Vigdísi Hauksdóttur, og send úr fjármálaráðuneytinu eins og segir í upphafi minnisblaðsins, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands.

Að forsætisráðherra ásaki ítrekað aðra þingmenn um að fara hér með rangt mál og sé svo augljóslega ber að því að reyna að villa um fyrir þingheimi í orðræðu sinni og kalli það rangar getgátur sem eru skrifleg bréf hans eigin ríkisstjórnar til þingsins er málefni sem ég tel að hæstv. forseti verði að láta til sín taka og sé algjörlega nauðsynlegt að formenn þingflokka ræði. Virðulegur forseti, einhverjar reglur verða að gilda hér í húsinu. (BirgJ: Heyr, heyr!) (Gripið fram í: Heyr, heyr!)