143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil vegna þeirra umræðu sem hefur skapast um að fjárlagafrumvarpið hafi verið tekið út úr fjárlaganefnd án nefndarálits — það var kallað fram í af hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni: Hvernig var þetta á síðasta kjörtímabili? — greina frá því að þetta hefur lengi verið plagsiður í nefndum þingsins, að taka mál út án þess að fyrir liggi nefndarálit og þá voru allir sammála um að það væri slæmt. Þess vegna voru gerðar breytingar á þingskapalögum árið 2011, samhljóða af þáverandi þingskapanefnd, og það fól í sér að í 29. gr. þingskapa var sett ákvæði um að nefndarálit skyldi liggja fyrir við úttekt máls, sem ekki hafði verið áður í þingsköpum. Þar var viðleitni til að breyta vinnubrögðum til hins betra sem allir voru sammála um. Þess vegna er ekki sanngjarnt að koma hingað og kalla fram í að þetta hafi alltaf verið svona eða verið svona á síðasta kjörtímabili því að breytingarnar voru sannarlega gerðar í góðu samkomulagi allra flokka í því augnamiði að bæta vinnubrögð í þinginu. Að mínu viti hefði verið útlátalaust af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar (Forseti hringir.) að klára nefndarálitið og taka málið til dæmis út í fyrramálið, því að það er ekki fyrirhugað að ræða málið fyrr en á föstudag, það hefði verið nægur tími.