143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið fróðleg og ágæt. Mér finnst það samt varpa svolitlum skugga á hana hversu lítil þátttaka hefur verið í henni af hálfu hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Ég verð að segja að ef einhver hefði tekið þá ákvörðun í upphafi umræðunnar að byrja að fylgjast með pólitík, ef einhver hefði tekið þá ákvörðun fyrir tveimur dögum að gera það með því að horfa á útsendingu frá fundum Alþingis hefði umræðan gefið mjög bjagaða mynd af því sem við er að fást hér vegna þess að þeir voru fáir sem tóku til máls til þess að rökræða ýmis þau atriði sem eru til umfjöllunar í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Það skal þó sagt að auðvitað var þátttaka af hálfu forustu hv. fjárlaganefndar og ber að fagna því en hún var í mjög litlum mæli.

Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga eru liðir sem, eins og fram hefur komið, svipar meira til fjárlagaliða og eru útgjöld næsta árs fremur en viðbótin fyrir þetta ár. Ég ætla að fara ítarlegri í það á eftir sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir talaði um áðan, um græna hagkerfið, og svo má nefna breytinguna á framhaldsskólanum en það eru veigamikil atriði og verið að taka mjög stórar ákvarðanir án þess þó að pólitísk umræða um þau fari fram. Það er í rauninni verið að gera breytingar á útgjaldaliðum sem fela í sér stórkostlegar pólitískar breytingar.

Það er ekkert sérstaklega við núverandi meiri hluta að sakast í þeim efnum, svona hefur þetta verið og því miður hefur fyrirkomulagið, auðvitað ásamt öðrum samverkandi þáttum, leitt af sér ákveðið sinnuleysi stórs og vaxandi þjóðfélagshóps gagnvart stjórnmálum þar sem stjórnmálin eru í raun og veru litinn hornauga og stjórnmálamenn allir sagðir eins. Öll vitum við að svo er ekki, við erum ólík, fylgjum ólíkum stefnum og höfum ólíkar hugmyndir um það til dæmis hvernig haga á ríkisrekstrinum og okkur þykir ekki gaman þegar sagt er við okkur að sami rassinn sé undir okkur öllum. Það er því miður sú áferð sem blasir við af þeirri umræðu sem fólk hefur getað horft á hér síðastliðna tvo daga vegna þess að ásakanir hafa gengið á víxl: Svona gerðuð þið þetta fyrir ári. Eða þá: Ekki gerðum við þetta svona o.s.frv. Þetta er endalaus umræða sem mun í raun og veru aldrei fást neinn botn í.

Það eina sem við ættum að reyna, og væri vænlegt til árangurs, er að læra af þeim mistökum sem við höfum gert og bæta stjórnmálin og bæta pólitíkina og reyna að nálgast þetta með öðrum hætti. Stóra sorgin í þessu máli hér er að við erum eiginlega stödd á alveg nákvæmlega sama stað og við vorum í þessari umræðu fyrir einu ári, þ.e. mál koma mjög seint inn, breytingarnar koma inn á síðustu metrunum, við fáum ekki mjög mikla umfjöllun, það er lítil pólitísk samræða og í skjóli nætur er síðan samið um að haga dagskránni með einhverjum tilteknum hætti þannig að allir geti farið sáttir heim að sofa.

Ein birtingarmynd þessa stjórnmálalega veruleika er tilhneiging manna til þess að hrósa sjálfum sér, að koma í fjölmiðla og hingað í þennan ræðustól og telja upp hvernig þeim hefur tekist að raða tekjuöflun ríkisins öðruvísi upp en áður var gert og raða útgjöldum ríkisins öðruvísi upp en áður var gert og tala síðan um það eins og eitthvert sérstakt afrek, eins og menn hefðu farið út og sótt fjármuni eða fundið peninga þar sem engum hafði áður dottið í hug að leita og þetta séu peningar sem menn séu komnir með til þess að færa þeim sem á þeim þurfa að halda. Þetta eru auðvitað fjármunir sem við eigum öll, sameiginlegur ríkissjóður okkar sem við erum að fjalla um og mismunandi áherslur í stjórnmálum birtast í mismunandi áherslum í útgjöldum. Það er einfaldlega þannig. Það er fráleitt að tala um endurröðun þeirra sem eitthvert sérstakt afrek, það er einfaldlega birtingarmynd pólitískrar stefnu. Ég held að ef við ætlum að mæla afrek ættum við að mæla þau í áhuga ungs fólks á því að taka þátt í stjórnmálum, í áhuga ungs fólks á að láta sig samfélagsmál varða, í áhuga fólks á umhverfismálum, í áhuga ungs fólks á að leysa fátæktarvanda heimsins, í áhuga ungs fólks á að tryggja að það verði lífvænlegt á þessari plánetu sem við búum öll á. Það er lykillinn að framtíðinni.

Það eru kannski stór orð að halda því fram að slíkur lykill geti falist í umræðu um fjáraukalög á Íslandi en hann gerir það samt. Það er mikil ábyrgð á okkur lögð í því hvernig við fjöllum um pólitíkina í því tilliti. Ef við vöndum okkur ekki og ef við gerum þetta ekki vel þá fjölgar þeim sem er sama þótt skorið sé niður til þróunarmála og þá fjölgar þeim sem er sama ef illa er gengið um náttúruna, sem er sama ef lífstíll okkar, sem byggjum þetta land, er ekki sjálfbær. Ég ætla að láta þetta duga um það sem ég vil segja um þá birtingarmynd pólitíkurinnar sem birtist í umræðunni hér. Ég er ekkert að benda á neinn sérstakan í þeim efnum, ég er bara að tala um það sem mér finnst að við ættum að reyna að laga af því að mér finnst þetta vera vond pólitík og mér finnst við geta bætt hana.

Svo vil ég aðeins tala um vonda stjórnsýslu og fara þá í sama lið og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerði svo vel í ræðu sinni áðan, þar sem fjallað er um græna hagkerfið. Það var mjög merkilegt og metnaðarfullt þverpólitískt verkefni á síðasti kjörtímabili sem skilaði eftir fjögurra ára mikla vinnu fjöldanum öllum af mjög merkilegum tillögum, gríðarlegur kostnaður og tími hefur farið í það og því er öllu kastað hér fyrir róða.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að liðurinn lækki samtals um 280 millj. kr.“ — Þetta er græna hagkerfið. — „Annars vegar er lagt til að 74,5 millj. kr. af samtals 280 millj. kr. tímabundnu framlagi, sem veitt var í fjárlögum ársins 2013 til verkefna í svonefndri fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013–2015, verði flutt frá forsætisráðuneyti til umhverfis- og auðlindaráðuneytis en umsjón verkefnanna var flutt milli ráðuneytanna fyrr á þessu ári. Fjárhæð tillögunnar byggist á mati verkefnastjórnar græna hagkerfisins um kostnað verkefnanna á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að niður falli fjárheimild til þessara verkefna að öðru leyti, eða 205,6 millj. kr., þar sem forsendur um fjármögnun þeirra ganga ekki eftir.“

Síðan kemur hérna næsti liður í frumvarpi til fjáraukalaga:

„Sótt er um 165,5 millj. kr. framlag á þennan nýja fjárlagalið til verkefna sem tengjast græna hagkerfinu og verkefnum um vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl.“

Ég hef mikið velt fyrir mér og spurt að því áður í þessum ræðustól: Hvað í þessu verkefni er grænt? Af hverju heitir liðurinn Græna hagkerfið?

Þá ætla ég, með leyfi forseta, að fara í gegnum textann:

„Ráðgert er að fjárheimildin verði einkum nýtt til tilfærslna á aðra liði ráðuneytisins,“ þ.e. forsætisráðuneytisins, „vegna tímabundins stuðnings við mikilvæg og aðkallandi verkefni á sviði byggða- og þjóðmenningarverkefna sem talið er brýnt að bregðast við.“

Með fullri virðingu fyrir þessum mikilsverðu verkefnum sem eru á sviði byggða- og þjóðmenningarverkefna hafa þau beðið og verið til staðar í nokkuð langan tíma og ég velti fyrir mér: Hversu brýn geta þau verið?

Ég held áfram lestri mínum, með leyfi forseta:

„Tillagan byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld á næstu árum. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði skipt þannig: Þjóðminjasafn Íslands 80 millj. kr. til úrbóta á aðstöðu safnsins til varðveislu þjóðminja og tryggja ásættanlega lausn þeirra mála til frambúðar hér á landi. Minjastofnun Íslands 70 millj. kr. vegna kostnaðar við sameiningu húsafriðunarnefndar við stofnunina og nýrra verkefna sem lögin kveða á um að stofnunin beri ábyrgð á og reyndust umfangsmeiri en áætlað var. Einkum er um að ræða húsnæðiskostnað, hönnunarvinnu, lögfræðikostnað og endurnýjun á tölvu- og tæknibúnaði. Einnig er ráðgert að veita fé til brýnna húsafriðunarverkefna. Aðalskrifstofa forsætisráðuneytis 15,5 millj. kr. Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði unnið að innleiðingu nýrra verkefna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, m.a. hvað varðar vernd sögulegra og menningartengdra byggða, fornleifa o.fl. Hafin er vinna við gerð frumvarps til laga um verndarsvæði í byggð og gert er ráð fyrir að ráðnir verði sérfræðingur og ráðgjafar til þess að sinna þessu verkefnum.“

Ég ítreka spurningu mína, virðulegur forseti: Hvað er það nákvæmlega í þessu sem er grænt? Það er ekkert sem tengist græna hagkerfinu í þessum lið, þetta er eiginlega alveg fráleitur titill. Og auðvitað vitum við að hann er til kominn og hefur verið færður undir forsætisráðuneytið vegna þess að forsætisráðherra hefur sérstakan áhuga á varðveislu gamalla húsa, sem er engin ástæða til þess að gera lítið úr. Það er hið besta mál og frábært að einhverjir hafi þær hugsjónir og finnist það mikilvægt.

En hvers lags stjórnsýsla er þetta? Ef hæstv. forsætisráðherra hefði haft mikinn áhuga á veðrinu hefðum við þá fært Veðurstofuna undir forsætisráðuneytið bara þetta kjörtímabil út af því? Ef Jón Gnarr væri forsætisráðherra ætti þá Þjóðleikhúsið tímabundið að fara undir forsætisráðuneytið? Ef við byggjum við það að hafa sérlega drykkfelldan forsætisráðherra ætti þá ÁTVR að vera tímabundið undir forsætisráðuneytinu? Hvers lags stjórnsýsla er það að ef forsætisráðherra hefur áhuga á einhverju málefni er það sett undir hans ráðuneyti?

Hvernig á að skilja það að aðalskrifstofa forsætisráðuneytisins fái þarna 15,5 milljónir og alla þessa fjármuni? Er það virkilega svo í þeirri vinnu sem unnin hefur verið síðustu daga og síðustu vikur í fjárlaganefnd þar sem menn hafa verið að kasta fram ýmsum hugmyndum — og við skulum gera ráð fyrir því að minnisblöð sem fjallað er um í ríkisstjórn og send eru úr ráðuneytinu til fjárlaganefndar séu spekúlatíf, getgátur eða vangaveltur um það hvað hugsanlega eigi að gera og hugsanlega ekki — er það þá virkilega þannig að á sama tíma og menn hafa verið að velta fyrir sér að skera niður barnabætur og draga úr þróunaraðstoð hefur þessi liður sem allur fjallar um útgjöld á næsta ári, hann fjallar allur um fyrirhuguð útgjöld upp á 165 milljónir, staðið algjörlega óhreyfður?

Það hefur engum dottið í hug að hægt væri að nota eitthvað af þeim fjármunum til þess að koma til móts við fólk sem er að deyja úr fátækt úti í heimi. Út af því að það er svo sannarlega ekki hægt að segja að það eigi að fara að nýta þessa fjármuni til hjálpar einhverjum hér á Íslandi, eins veikburða og sá rökstuðningur er að halda því fram að á meðan einhver neyð sé á Íslandi eigum við ekki að standa í neyðaraðstoð eða þróunarsamvinnu, eins og þetta sé á einhvern hátt sambærilegt. Eins og við megum ekki á sama tíma og fólk glímir við heilsuleysi, örorku eða atvinnuleysi á Íslandi hjálpa þeim sem eru að deyja úr sjúkdómum og hungri. Það er alveg sérdeilis fráleitur málflutningur og því miður of margir sem láta sig hann ekki varða, of mörgum sem finnst stjórnmálaumræðan of fráhrindandi, of ruglingsleg og í raun og veru of andstyggileg til þess að taka þátt í henni. Það er áhyggjuefni.

Það sem er hins vegar jákvætt við stöðu mála eins og hún er í dag er að ég held að fólk sé að vakna til vitundar um möguleika sína til þess að bregðast við þessu ástandi. Ég held að ný tækni, samfélagsmiðlar, breytt fjölmiðlun, það hvernig fólk fréttir hlutina, það hvernig fólk fræðist, sé að breyta þessu. Ég er bjartsýnn á að það muni gerast en það gerist auðvitað ekki af sjálfu sér, það þarf að berjast fyrir því, það þarf að tala fyrir því og það þarf að breyta í samræmi við það sem manni finnst í þeim efnum og reyna að nálgast stjórnmálin á nýjan hátt.

Ég veit að í stjórnarliðinu eru margir þingmenn sem eru að reyna að gera það og eru mjög einbeittir í því að gera það. Það er líka mikil ábyrgð á okkur sem erum í minni hluta og höfum verið hér áður að umgangast þá þannig að leyfa þeim að varðveita þau heilindi og þann ásetning sem þau komu með inn í þetta hús sem er að reyna að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið og bæta um leið stjórnmálin sem við iðkum hér og gera þau að þeirri göfugu list sem þau eiga að vera þar sem fólk skiptist á mismunandi hugmyndum um samfélagið, rökræðir kosti og galla, hræðist ekki skoðanaágreining, verður ekki persónulegt þó að hann sé til staðar og leysir ágreining sinn friðsamlega í atkvæðagreiðslu þar sem meiri hlutinn ræður. Gamalt form, ekki gallalaust en hefur virkað ágætlega hingað til og er kallað lýðræði.