143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hefði sjálf gjarnan viljað koma með málið hingað inn fyrr. Það tafðist að ákveðnu leyti vegna þess að við vorum að fara fram og til baka með ferlið sjálft og markmiðið sem ég var að tala hér um, þ.e. hvernig við gætum reynt að hafa ferlið sem einfaldast. Tillaga kom inn í velferðarnefnd á sínum tíma frá umboðsmanni skuldara þar sem hugað var að sambærilegum þáttum. Ég flutti líka frumvarp sjálf sem var raunar hreint og beint gagnvart dómskerfinu en tengdist ekki umboðsmanni skuldara. Þar var sem sagt farið í gegnum alla þá hugsun sem tengdist þeim málum. Það má segja að það sé líka ástæðan fyrir að ég nefni hér sérstaklega sólarlagsákvæðið vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að greiðsluaðlögun sé mjög mikilvægt úrræði, skipti okkur verulega miklu máli, það sé búið að sýna sig og geri enn eins og kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins í gær, minnir mig, um að fólk fái í einstökum tilvikum allt að því 100% afskriftir á skuldum sínum.

Það er mjög mikilvægt að þessi breyting verði ekki hugsuð með það fyrir augum að koma í staðinn fyrir greiðsluaðlögun heldur eigi greiðsluaðlögun að vera vægara úrræði en gjaldþrotaskipti. Gjaldþrotaskipti eiga að vera lokaúrræði þegar menn sjá enga aðra kosti því að þau hafa alvarlegar afleiðingar. Það skiptir hins vegar máli þegar staðan er þannig að engar eignir eru til staðar og ekki er að sjá að nokkur leið sé fyrir viðkomandi að vinna úr sínum málum að hann hafi möguleika á að klára sín mál með þeirri aðstoð sem hér er verið að leggja til.

Varðandi spurninguna um tímasetninguna — ég fæ að koma aftur varðandi það mál, en ég legg áherslu á að reyna að klára þetta sem fyrst.