145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

vinna stjórnarskrárnefndar.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég tel að okkur hafi tekist ágætlega upp á þessu kjörtímabili að færa umræðu um stjórnarskrárbreytingar í nýjan farveg með því að skipa þá nefnd sem hér er til umræðu. Í mínu tilviki höfum við haft þann háttinn á að fulltrúar okkar í nefndinni, þeir eru tveir, hafa komið og gert grein fyrir stöðu málsins frá einum tíma til annars. Ég hef tekið eftir því að í meðförum nefndarinnar hafa fæðst nýjar hugmyndir og sumar eru enn tiltölulega nýlegar þó að þær séu orðnar nokkuð þroskaðar í nefndarstarfinu.

Fyrir mitt leyti er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að menn ljúki vinnunni eftir að nefndin hefur sameiginlega komist að niðurstöðu. Það hefur hins vegar verið mín upplifun að enn vanti upp á einhver atriði, menn geta haft ólíkar skoðanir á því hversu stór þau eru, eins og oft vill verða í smáa letrinu þegar flækjustigið fer að vaxa.

Ef spurt er um mína persónulega skoðun er ég þeirrar skoðunar og hef gert grein fyrir því oftar en einu sinni að það væri mikið framfaraskref fyrir okkur að gefa almenningi kost á að kalla eftir atkvæðagreiðslu um lög frá þinginu. Ég tel fara mun betur á því en að rétturinn til að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu hvíli hjá forsetanum einum. Ég tel sömuleiðis, og vísa til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur oftar en einu sinni fært það í stjórnarsáttmála, tímabært að við setjum auðlindaákvæði í stjórnarskrá og vonast til að nefndin skili því verki þannig að við getum náð góðri samstöðu um það á þinginu.

Mér heyrist nú að um hin atriðin sé ágæt samstaða, þ.e. um náttúruverndarákvæðið. Hins vegar skynja ég að það sé dálítið viðkvæmt mál þetta með framsalsákvæðið. (Forseti hringir.) Ég sé ekki annað en að nefndin sé að vinna að ákvæði sem (Forseti hringir.) festir í lög þá framkvæmd sem við höfum þekkt hér á þinginu en það kann að vera að það sé ólíkur skilningur á því (Forseti hringir.) ákvæði þegar sú umræða hefst.

Fyrir mína parta er ekkert því til fyrirstöðu að um leið og nefndin er sammála verði málið tekið inn í þingið.