149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi komið bærilega skýrt fram í framsögu minni fyrir nefndaráliti að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að ekki sé staðið að ákvörðun um aukatekjur og breytingar á aukatekjum ríkissjóðs með þeim hætti sem best verður á kosið. Þess vegna leggjum við það til við fjármála- og efnahagsráðuneytið að það verði heildarendurskoðun á lögunum, m.a. til þess að fram fari kostnaðargreining.

Án þess að ég viti það hygg ég að hér sé verið að innheimta gjöld sem eru undir kostnaðarverði og svo eru önnur gjöld sem sjálfsagt eru eitthvað yfir. Ég held líka að það skipti verulega miklu máli við endurskoðun þessara laga að það sé tryggt að þegar innleidd er hér t.d. rafræn þjónusta á vegum ríkisins sé hagkvæmni náð í þjónustunni, að þá sé tryggt að þeir sem noti þjónustuna fái notið þeirrar hagræðingar með tíð og tíma. Ég hygg að við munum sjá þegar fram líða stundir og t.d. rafrænar þinglýsingar verði meginregla, sem kostar að vísu mjög mikið að koma á koppinn, muni menn sjá það.

Það er hins vegar alveg kórrétt hjá hv. þingmanni að við getum verið sammála um að það er ekki góð aðferð að vera bara með hreina vísitöluhækkun. Við getum að vísu sagt að landsmenn hafi þó notið þess. Í átta ár hefur engin hækkun átt sér stað á flestum þessara gjalda. Menn hafa fengið að njóta þess og svo kemur einhvern tímann að skuldadögum. Það hefði verið hyggilegra (Forseti hringir.) að fram færi greining og það hefur gerst, hv. þingmaður, m.a. þegar kemur að útgáfu vegabréfa. Það er rangt sem hv. þingmaður segir, að engin greining hafi átt sér stað.