150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

rannsókn Samherjamálsins.

[15:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að tala um hug ríkisstjórnarinnar, í þetta skipti við hæstv. fjármálaráðherra. Ég er með smáinngang. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt opinberlega að ásakanir á hendur Samherja, um meintar mútugreiðslur og peningaþvætti, séu mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt atvinnulíf og til skammar ef rétt reynist. Ríkisstjórnin hefur lýst yfir alvarleika málsins sem verði að rannsaka ofan í kjölinn. Hvað þýðir það að rannsaka ofan í kjölinn? Maður veltir óneitanlega fyrir sér trúverðugleika stjórnvalda í málinu, t.d. af hverju lykilstjórnendur Samherja hafi ekki sætt gæsluvarðhaldi til að tryggja rannsóknarhagsmuni. Af hverju var ekki strax brugðist við með þeim hætti að haldleggja tölvur og gögn svo að þeim rannsóknarhagsmunum yrði ekki spillt? Hvaða skilaboð senda íslensk stjórnvöld út í alþjóðasamfélagið með slíkum vinnubrögðum? Telur ráðherra aðgerðirnar eða öllu heldur aðgerðaleysið sannfærandi með tilliti til þess hvernig Namibía er að taka á málunum? Við vitum að sjávarútvegsráðherra hefur mjög sterk tengsl við Samherja. Af hverju er það virkilega ekki í stöðunni að tala um hvort hann eigi að stíga til hliðar, a.m.k. á meðan rannsókn málsins fer fram? En það kom svo sem ekki á óvart.

Það sem mig langar til að tala um við hæstv. fjármálaráðherra er að nú hefur héraðssaksóknari óskað eftir viðbótarfjármagni til þess að geta staðið betur að rannsókninni. Mig langar til þess að vita hversu háar þær fjárhæðir eru. Hæstv. fjármálaráðherra hefur tjáð það, í fréttum í gærkvöldi, að ekki stæði á því þeim megin séð að þeir fjármunir myndu skila sér til rannsóknarinnar. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hversu há er þessi upphæð? Stendur það algjörlega að héraðssaksóknari hafi gjörsamlega frjálsar hendur, a.m.k. peningalega séð, til að gera það sem hann telur rétt og nauðsynlegt að gera til þess að við getum rannsakað þetta mál af þeim myndugleik sem ég tel að við þurfum að gera?