150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt að við ræðum þetta hérna reglulega og ég held að þrátt fyrir að ég vildi að við værum komin lengra í vinnunni og værum komin með leið og værum jafnvel búin að ganga í það að klára sé líka hollt og fínt að við tökum reglulega umræðuna samhliða því að við erum að vinna þetta. Þessi umræða skiptir máli og það er jákvætt að heyra að það er mikil þverpólitísk sátt um að þetta þurfi að laga. Þess vegna þakka ég fyrir umræðuna.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson rakti söguna ágætlega. Það var tekin meðvituð ákvörðun um að fara þessa leið og því sitjum við uppi með þá stöðu sem við sitjum uppi með í dag. Komið var inn á alls konar hluti. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefndi til að mynda raforkuverð. Framleiðslan, raforkuverð og samningar um orkuna sjálfa er allt á samkeppnismarkaði. Því stýrum við ekki hér.

Svo var dreifingin aðeins reifuð. Hv. þm. Smári McCarthy spurði hvort það væri örugglega þannig að hún væri ekki á samkeppnismarkaði. Það er rétt, dreifingin er ekki á samkeppnismarkaði, það er sérleyfisskyld starfsemi og engin samkeppni þar. Þess vegna höfum við færi á því að stíga inn í það á þann hátt sem við erum að ræða.

Auðvitað snýst þetta um raunverulegt frelsi til búsetu og þetta er liður í því að jafna dreifikostnað raforku, er liður í því að það sé raunverulegt frelsi til búsetu.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson nefndi líka að hann þekkti þessa vinnu ágætlega. Það er m.a. vegna þess að hann vinnur sjálfur ötullega í því máli í gegnum þá vinnu sem hefur átt sér stað og með Orkustofnun og sérfræðingum í ráðuneyti mínu.

Svo var aðeins komið inn á flutningskerfið. Það er bara annað og þar er ekki skortur á fjármagni heldur miklu frekar hefur tekið allt of langan tíma að byggja það upp. Margar ástæður eru fyrir því.

Staðan eins og hún er núna er einfaldlega kerfisgalli, alvarlegasti ágalli á regluverkinu, (Forseti hringir.) og eitt af því jákvæða sem hefur komið út úr þessari vinnu er að nýjustu spár sýna að þörf dreifbýlisveitna til hækkunar á gjaldskrám nái hámarki á næstu árum, þannig að þetta kallar ekki á alla þessa jöfnun til langrar framtíðar heldur erum við fljótlega að fara að ná toppnum og þá mun það jafnast enn frekar.