152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu um stöðu efnahagsmála nú í Covid-faraldrinum ásamt yfirferðinni um þau ýmsu úrræði sem gripið hefur verið til til þess að koma til móts við fyrirtæki og fólk í faraldrinum. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég held að það skipti alveg gríðarlega miklu máli hvernig brugðist hefur verið við og að hina góðu stöðu, m.a. það hversu mikið atvinnuleysi hefur dregist saman, megi rekja til þessa. Mér finnst mikilvægt að minnast líka á það hérna að sú ákvörðun um að standa vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfið á fjárlögum í gegnum þennan faraldur og raunar gott betur á sumum sviðum þrátt fyrir að skatttekjur hafi dregist saman, skipti einnig afskaplega miklu máli og spili inn í það að við erum að koma þetta vel út úr faraldrinum. En vegna þess að hæstv. ráðherra kom inn á það að faraldurinn hafi ekki leitt til aukins tekjuójafnaðar, sem ég held að sé mál sem skipti alveg gríðarlega miklu máli í sjálfu sér, langar mig aðeins að fá það betur fram hvernig þetta er mælt og hvernig fylgst er með því, þ.e. að aðgerðir eða aðgerðaleysi séu ekki að leiða til aukins ójafnaðar, (Forseti hringir.) því auðvitað þekkjum við öll dæmi af einstaklingum sem því miður gengur ekki nógu vel hjá. (Forseti hringir.) En mig langar að vita í hvaða grunn ráðuneytið leitar um þessar upplýsingar.