152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að húsnæðismálin verði einn lykilþáttur í aðdraganda kjarasamninga. Við ríkisstjórnarborðið er þegar hafið samtal um að við setjum af stað vinnu til að styrkja grundvöll samtalsins vegna húsnæðismála í aðdraganda kjarasamninga. En auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að það er erfitt að gera kjarasamninga þegar verðbólga er yfir markmiðum og þegar óvissa er um verðbólguþróun. Þetta er alveg hárrétt. Þegar við ræðum um þetta í ljósi reynslunnar er almennt hægt að gera ráð fyrir því að verkalýðsleiðtogar fari fram á að fá verðbólguna og eitthvað þar ofan á til að einhver kaupmáttur komi út úr þessu. En við sjáum það líka af reynslunni að við slíkar aðstæður er oft erfitt að gera samninga til lengri tíma. Kannski þurfum við bara að komast í gegnum þetta tímabil í styttri skrefum og ná tökum á stöðunni í millitíðinni til að treysta forsendur fyrir langtímasamninga.