152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað af því sem hér var talið upp átti að vera gagnrýni á Seðlabankann og hvað af því var eitthvað sem átti að heimfæra upp á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. En ég vil ekki samþykkja að við höfum beðið með aðgerðir. Við komum strax í marsmánuði 2020 með fyrstu aðgerðir okkar og vorum þá í alveg ofboðslega miklu óvissutímabili þar sem maður sá ekki nema í besta falli nokkrar vikur fram í tímann og sumir sérfræðingar sem komu til manns báðu mann um að hafa það í huga að þetta gæti allt saman gengið yfir á 8–12 vikum. Í samræmi við aðstæður hverju sinni þá komum við með nýjar aðgerðir, komum með þessa svokölluðu aðgerðapakka. Þegar allt kemur til alls, erum við ekki bara í ágætisaðstöðu í dag til að spyrja: Hvernig gekk heimilunum að komast af í gegnum faraldurinn? Hvernig tókst okkur að verja störf? Tókst okkur að tryggja einhverja viðspyrnu þegar það fór svona aðeins að birta til að nýju? Beittum við ríkisfjármálunum yfir höfuð? Var rétt að fara í fjárfestingarátak? Hvert rötuðu peningarnir? Rötuðu þeir þangað sem vandinn var mestur eða ekki? Ég er búinn að vera að lýsa því yfir hér í dag að mér fannst við vera mjög skilvirk í þessum aðgerðum og okkur hafi tekist á efnahagshliðinni álíka vel og í heilbrigðismálunum þar sem við vorum að verja líf og heilsu fólks, náð þessum helstu markmiðum um að fleyta okkur í gegnum eina mestu efnahagslægð sem við höfum upplifað án þess að hér yrðu mikil áföll umfram tilefni.

Hér er talað um að verðtryggðu skuldirnar sitji eftir, hækkun skuldanna sitji eftir. En ef við skoðum þetta í virði krónunnar þá eru skuldirnar ekkert að hækka langt umfram verðbólgu vegna þess að vextirnir hafa verið mjög lágir á þessu tímabili og á móti þessum verðtryggðu skuldum eru eignir sem hafa verið að hækka eins og hér er verið að lýsa, þannig að eignastaða heimilanna hefur ekki verið að þróast með hroðalega erfiðum hætti. Það sem við hljótum að gera, við erum að tala hérna um langtímalán, lán sem eru tekin til margra áratuga yfirleitt, er að spyrja: Hvernig tekst heimilunum að komast í gegnum erfiðari greiðslubyrði tímabundið? (Forseti hringir.) Mun vera hægt að endurfjármagna lánin? Verða heimilin í skjóli? Þetta eru lykilspurningarnar.