152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:12]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er ánægður að heyra að þessari vinnu við húsnæðisliðinn sé ekki að fullu lokið. Verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur í þeim málum.

Ég vil kannski aðeins leyfa mér að skipta um kúrs, en þó ekki, í þessari umræðu og ræða um skipulagsmál eða húsnæðisþáttinn. Ég heyrði það í umræðum hér áðan að hæstv. ráðherra nefndi mjög áhugaverðan punkt, sem ég hef nú rætt á öðrum vettvangi, sem bæjarfulltrúi í sveitarfélagi mjög nálægt okkur, í Hafnarfirði, og það er svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Ég heyrði að hæstv. ráðherra var mjög afgerandi á þeirri skoðun að svæðisskipulagið væri eitthvað sem jafnvel þyrfti að taka til frekari skoðunar. Ég verð að segja það, frú forseti, að ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra í því og hef raunar sagt það mjög lengi. Við verðum einhvern veginn að fara að horfa á hlutina í stærra samhengi. Við erum mjög nálægt svæðum eins og Ölfusi og Reykjanesbæ og þetta er orðið eitt atvinnusvæði, má segja, en höfuðborgarsvæðið er einhvern veginn að koma í veg fyrir frekari húsnæðisuppbyggingu á þessum svæðum. Ef ég nefni Hafnarfjörð sem dæmi er staðan einfaldlega þannig hjá okkur að það er ekkert nýbyggingarsvæði í boði innan þess ramma sem við vinnum eftir, innan svæðisskipulagsins. Svæðisskipulagið er til 2040 og það eru 18 ár eftir. Þetta tengist kannski að hluta til þessum málum í bland og tengist auðvitað öðrum ráðherra líka en ég spyr með hvaða hætti hæstv. fjármálaráðherra sér þennan málaflokk.