152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Mig langar til að minnast aðeins á það að hv. þingmaður taldi að svona nýsköpunarfyrirtæki, sprotafyrirtæki, myndu kannski helst verða til hérna á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé ekki endilega rétt. Ég held að það geti einmitt breyst vegna þeirra breytinga sem við höfum séð gerast í þessum heimsfaraldri. Jafnvel fyrir þennan faraldur vorum við með dæmi um fyrirtæki víða um landið. Eitt af stóru fyrirtækjunum á Íslandi sem hefur verið að vaxa hvað hraðast og stefnir núna á skráningu á Bandaríkjamarkaði, ef ég skil það rétt, er frá Ísafirði, Kerecis. Þaðan var það fyrirtæki í raun og veru byggt upp. Ég minnist þess sömuleiðis að hafa verið í tölvufyrirtæki á Egilsstöðum þar sem þau voru að sýna mér hvernig þau voru að stýra í rauntíma umferðarljósum í Hollandi. Það er hægt að gera ótrúlega hluti hvaðanæva á landinu. Við höfum verið að taka út hvernig hefur gengið. Ég hef til að mynda vísað í skýrslu Arnórs Sighvatssonar sem kom út (Forseti hringir.) á síðasta ári og þar var farið nokkuð vítt yfir sviðið.