152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Í þessari umræðu, um skýrslu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vegna efnahagslegra viðbragða við Covid-faraldrinum, er eðlilega komið víða við og hægt að ræða málið út frá mjög mörgum hliðum, bæði út frá því sem hefur verið gert í fortíðinni, hvernig staðan er akkúrat núna og svo að huga að því hvernig við sjáum samfélagið fyrir okkur í framtíðinni. Ég held að þetta skipti allt saman máli og það skiptir máli að ræða þetta hérna. Hér í dag hefur talsvert verið talað um verðbólguna, eðlilega, og hæstv. ráðherra svaraði hér öðrum hv. þingmanni áðan eitthvað á þá leið að sérstaklega þyrfti að skoða stöðu veikustu hópanna í samfélaginu því að svona verðbólguskot gangi yfir. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að tala aðeins meira um þetta því að ég held að þetta sé raunverulegt áhyggjuefni, sérstaklega lágtekjufólks sem er verst í stakk búið til að mæta þessu, það má við svo litlu til þess að rugga bátnum. Þess vegna skiptir það máli að við á Alþingi og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra séum að velta fyrir okkur viðbrögðum, hvernig hægt sé að tryggja stöðu fólks sem er kannski efnahagslega bág fyrir svo að hún versni ekki enn frekar.