152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Sterk staða ríkissjóðs þegar áföll vegna heimsfaraldurs gengu yfir minnir okkur á hversu mikilvægt það er að safna korni í hlöðurnar þegar vel árar. Hæstv. ráðherra hefur farið skilmerkilega yfir hvernig sterk staða hefur verið nýtt til að verja fyrirtæki og heimili í þessari djúpu efnahagslegu lægð. Meira að segja svo vel að kaupmáttur flestra launamanna hefur vaxið, ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa. Við getum í flestu verið nokkuð bjartsýn þegar við horfum fram á veginn, þ.e. ef við stöndum rétt að málum.

Á þessu ári hygg ég að sex ár séu liðin frá því að lög um opinber fjármál tóku gildi. Þau hafa í flestu reynst vel en vegna aðstæðna sem við þekkjum höfum við m.a. vikið skuldareglu og afkomureglu aðeins til hliðar. Það er hins vegar ljóst við þessar aðstæður að það kemur æ betur í ljós að ágallar eru á lögunum um opinber fjármál. Við erum með skuldareglu, við erum með afkomureglu en við erum ekki með útgjaldareglu.

Nú, þegar fer að blása betur í seglin hjá ríkissjóði, spyr ég hæstv. ráðherra: Getur hann verið sammála mér um nauðsyn þess að endurskoða lög um opinber fjármál og innleiða útgjaldareglu, setja þak á þróun útgjalda ríkisins og hins opinbera í heild með sama hætti og til er skuldaregla og afkomuregla?