154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[16:08]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni spurningarnar. Það er nú einu sinni þannig að það er ákveðið regluverk í kringum alla hluti sem við erum með. Má einfalda það og gera aðgengilegra? Já, ég get alveg tekið undir það. En við þurfum svo sem alltaf að setja okkur sömuleiðis einhver takmörk í því hvernig við framkvæmum hlutina og sköpum ákveðnar leikreglur og það er yfirleitt gert annaðhvort með reglugerð eða með lögum. Við þekkjum öll sögu sláturhússins á Seglbúðum t.d. þar sem menn hafa því miður dregið allverulega saman eða hvort þeir eru alveg hættir, ég er ekki alveg með það á hreinu. Þar voru vissulega ákveðnar íþyngjandi reglur. Það felast ákveðin tækifæri í því að við séum með svona minni sláturhús í heimabyggð og ég tala nú ekki um í tengslum við ferðaþjónustuna sömuleiðis og sem því fylgir, t.d. að hótel geti boðið upp á kjöt beint úr heimabyggð. Vissulega getum við gert mikinn skurk í því að upprunamerkja vöruna okkar enn betur í þessum stærri húsum, en það er nú einu sinni þannig að hlutirnir kosta alltaf einhverja peninga og þegar við ætlum að reyna að ná fram meira hagræði og öðru þá er það alltaf matskennt hversu langt við viljum ganga í hvert skipti fyrir sig. En vissulega er mikilvægt til framtíðar litið að hlúa vel að minni framleiðendum, sömuleiðis að frumframleiðendum sem fá heimild til aukins samstarfs.