131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Loftslagssamningurinn og stefna Íslands.

[15:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í ræðu sem hæstv. forsætisráðherra hélt á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins um helgina braust út það sem pistlahöfundur Morgunblaðsins gæti kallað hamslausa stóriðjuást. Hæstv. ráðherra gerði stóriðjustefnuna að sérstöku umtalsefni með því að beina sjónum sínum að hinu svokallaða íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar sem stjórnvöld knúðu fram í samningaviðræðum við aðildarríkin á árunum 1997–2002. Árið 2002 var samþykkt að Íslendingar, sem, nota bene, einir þjóða höfðu fengið heimild til að auka losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt bókuninni um 10%, fengju þar fyrir utan að losa 1,6 millj. tonna á ári frá málmbræðslum og öðrum þungaiðnaði. Hæstv. ráðherra notaði orðið sigur í því sambandi og sagði að Íslendingar hefðu haft sigur í þessu máli þegar þeir fengu meðgjöfina, heimildina til að menga hlutfallslega meira en nokkur önnur þjóð sem aðild átti að Kyoto-bókuninni.

Hæstv. forseti. Nú vil ég leyfa mér að gagnrýna þennan málflutning sem ég tel í mesta máta ósmekklegan í ljósi nýafstaðinnar vísindaráðstefnu sem haldin var hér á landi í tilefni af nýrri skýrslu 250 vísindamanna um hlýnun lofthjúpsins og áhrif loftslagsbreytinga af manna völdum á norðurheimskautssvæðið. Niðurstöður rannsóknanna sem skýrslan fjallar um sýna að hlýnunin á norðurheimskautssvæðinu verði helmingi hraðari á næstu árum en annars staðar í heiminum og að hún muni hafa gríðarleg áhrif á allt líf fólks á norðurslóðum, ís muni bráðna, sífreri þiðna, dýrategundum og gróðri muni ógnað og líf frumbyggja muni gerbreytast, svo að eitthvað sé nefnt. Hæstv. ráðherra gerði sjálfur niðurstöðu skýrslunnar að umtalsefni í ræðu sinni á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs og lýsti þar áhyggjum sínum. Svo leyfir hann sér að dásama íslenska undanþáguákvæðið um leið og norrænir fjölmiðlamenn eru komnir úr augsýn.

Sér hæstv. forsætisráðherra ekki samhengi hlutanna? Af þessu tilefni spyr ég hæstv. ráðherra: Hver verður stefna Íslands þegar aðildarríki loftslagssamningsins hefja umræður um næsta skuldbindingartímabil eða hvaða forskrift fara íslenskir embættismenn með í farteskinu á næsta fund aðildarríkjanna í Buenos Aires 6.–17. desember nk.? Verða það óskir um frekari undanþágur til að uppfylla enn villtari drauma ríkisstjórnarinnar um fleiri álverksmiðjur?