131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Loftslagssamningurinn og stefna Íslands.

[15:12]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra standi sjálfur á haus og hann hefur stungið sínum haus svo kirfilega í sandinn að hann neitar að horfast í augu við staðreyndir þessa máls og neitar auðvitað að svara spurningunni sem lögð var fyrir hann: Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera á næsta skuldbindingartímabili sem verður byrjað að ræða í Buenos Aires næstu daga? Fara ekki íslenskir embættismenn á vegum hæstv. ráðherra á fundinn í Buenos Aires? Hvað fara þeir með í farteskinu? Óskir um frekari undanþágur fyrir frekari álverksmiðjur? Það stendur ekkert annað upp úr hæstv. ríkisstjórn í atvinnumálum Íslendinga en bunan um fleiri álverksmiðjur. Kvótinn er búinn, eða svo gott sem. Ætla íslensk stjórnvöld að fara fram á frekari undanþágur í því ferli sem nú er fram undan eða ekki?