131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:36]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú saman þrjú frumvörp, skattahækkunarfrumvörp upp á 140 millj. kr. frá hæstv. menntamálaráðherra sem fer hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar greinilega búin að finna breiðu bökin í landinu, þ.e. námsmenn við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskólann sem skulu, ef þessi frumvörp verða að lögum, borga 140 millj. kr. meira í skólagjöld eða skatt til ríkisins.

Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, að fylgjast með ríkisstjórninni um þessar mundir. Hún lofaði miklum skattalækkunum fyrir kosningar. Fyrsta árið voru skattar hækkaðir um 4 milljarða sem mun þá þýða í kringum 16 milljarða á kjörtímabilinu. Svo eru tilkynnt núna rétt fyrir helgi skattalækkunaráform þar sem hluti af þessari skattahækkun sem tekin var á síðasta ári er svo lofað sem skattalækkunum. Þetta er með ólíkindum. Það er alveg með ólíkindum að við skulum núna ræða þetta frumvarp þar sem menntamálanefndarfólk stjórnarflokkanna lætur ekki sjá sig við umræðuna. Aumt er hlutverk Framsóknarflokksins alveg sérstaklega, B-deildar Sjálfstæðisflokksins, sem greinilega hefur látið troða þessu máli ofan í sitt víða kok. Þetta er vafalaust einn gjaldstofn þess að formaður Framsóknarflokksins skuli fá að sitja í forsætisráðherrastól undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins eitthvað áfram á þessu kjörtímabili, guð veit hvað lengi.

Virðulegi forseti. Ég segi þetta vegna þess að á flokksþingum og annars staðar er stefnan mörkuð. Það gerðist hjá Framsóknarflokknum fyrir kosningar að samþykkt var mikil og góð stefnuyfirlýsing, m.a. í mennta- og skólamálum, sem er nú rétt að hafa hérna aðeins uppi.

Virðulegi forseti. Það er frekar truflandi þetta mikla hljóð sem berst héðan úr hliðarsal. Maður hefur það stundum á tilfinningunni að verið sé að ræða við mann. En ég ætlaði að hafa það á orði hér, virðulegi forseti, hvað Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum síðasta landsfundi í mennta- og skólamálum. Með leyfi forseta, þá segir svo í kaflanum um mennta- og skólamál m.a.:

„Í mennta- og skólamálum leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á eftirfarandi:

Halda ber fast í þá meginhugsun að nám ungs fólks sé öllum opið óháð efnahag og stöðu.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum,“ — Kærar þakkir framsóknarmenn fyrir að ætla að láta grunnskólana alla vega vera. Ég hef nú ekki séð að það þurfi að taka sérstaklega fram — „né heldur í ríkisreknum háskólum.“ (SJS: Hvar stendur þetta?)

Þetta stendur í samþykkt Framsóknarflokksins frá landsfundi 2003. (SJS: Nú.) Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að það er eðlilegt að menntamálanefndarfólk Framsóknarflokksins, þau Dagný Jónsdóttir sem sérstaklega skal tekið fram að er erlendis á vegum þingsins ... (Gripið fram í: Að horfa á fótboltann.) En það getur líka verið að það sé skringileg tilviljun að Gunnar Birgisson er líka erlendis þegar þetta mál er flutt hér. Auðvitað hefði nú verið meiri bragur á því ef þetta mál hefði verið flutt þegar þau eru heima. En hv. þm. Hjálmar Árnason, hinn menntamálanefndarmaður Framsóknarflokksins, er ekki erlendis. En hann lætur ekki sjá sig við þessa umræðu til þess að verja þessa gjörð sem menntamálaráðherra hefur farið hér með fram eftir að vera búin að svínbeygja Framsóknarflokkinn til að láta af sínum stefnuatriðum og leyfa framlagningu þessa máls.

Bara svo ég hafi sagt það hér, virðulegi forseti, þá verður dálítið kyndugt og spennandi að fylgjast með því hvernig því máli reiðir fram sem er nú hjá stjórnarflokkunum, þar á meðal hjá Framsóknarflokknum, um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Þegar haft er í huga hvað hv. varaformaður menntamálanefndar Dagný Jónsdóttir sagði hér í umræðu utan dagskrár um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans þá getur maður auðvitað lesið það hér — og ég ætla að hafa það eftir hér á eftir — og séð að Framsóknarflokkurinn er ekki alveg tilbúinn.

Ég spái því, virðulegi forseti, að menntamálaráðherra leggi það frumvarp fram eins og þetta hér eftir að hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, verður búinn að fara á þingflokksfund Framsóknarflokksins og vafalaust taka þetta þar út þingflokknum og heimila framlagningu vegna þess, eins og ég áður sagði, að þetta er hluti af gjaldinu fyrir forsætisráðherrastólinn.

Í ágætri grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði í Fréttablaðið 28. október síðastliðinn er fjallað um skólagjöldin eða þessa námsmannaskatta sem er ágæt upprifjun, og ber að þakka Kristni fyrir það, fyrir okkur sem höfum áhuga á pólitík og fylgjumst að sjálfsögðu með flokksþingum annarra flokka því maður gat fylgst með því hvernig þessi ályktun sem ég nefndi áðan varð til. Kristinn lýsir þessu í blaðagreininni. Ég ætla að lesa úr þessari grein vegna þess að hún á heima í þingtíðindum:

„Stefna Framsóknarflokksins er skýr varðandi skólagjöld í ríkisreknum háskólum: engin skólagjöld. Í samþykkt síðasta flokksþings, sem haldið var í febrúar 2003, segir orðrétt um þetta: „Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum, né í ríkisreknum háskólum.“

Spyrja má hvort afstaða flokksins nái aðeins til grunnnáms í ríkisreknum háskóla þannig að varðandi framhaldsnám sé flokkurinn fylgjandi skólagjöldum eða hafi a.m.k. ekki hafnað þeim. Svarið er ótvírætt nei við báðum spurningunum. Flokksþingið vísaði frá tillögu um að bæta við orðunum „í grunnnámi“ í ályktunina. Hún hefði þá hljóðað: „né í grunnnámi í ríkisreknum háskólum“. Breytingartillagan hefði dregið úr aðaltillögunni, þannig að hún væri ekki eins víðtæk og afdráttarlaus. Andstaðan við breytingartillöguna var svo mikil að ekki var heimilað að mæla fyrir henni og ekki mátti ræða hana í umræðunum, tillögunni var umsvifalaust vísað frá með dagskrártillögu sem“ — og takið þið nú vel eftir, virðulegi forseti, — „Dagný Jónsdóttir flutti og flestir viðstaddir forystumenn flokksins studdu. Skýrari afstöðu er ekki hægt að sýna til málsins.

Staðan er þá sú að hendur forustumanna flokksins og þingmanna eru algerlega bundnar í þessu máli. Þeir geta ekki hvikað frá samþykktri stefnu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru ekki boðuð skólagjöld og reyndar hvergi á þau minnst. Þar stendur að meðal helstu markmiða ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu sé: að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Stjórnarsáttmálinn var samþykktur í miðstjórn flokksins, og í honum felast engar heimildir til þess að víkja frá samþykktri stefnu flokksþingsins 2003.

Nú er spurt: Er Framsóknarflokkurinn tilbúinn til þess að taka upp skólagjöld í sameinuðum háskóla Tækniháskólans og Háskóla Reykjavíkur? Verði nýi háskólinn ríkisrekinn er svarið skýrt og ótvírætt nei. Flokkurinn getur ekki staðið að því nema þá að sækja áður nýja stefnu til næsta flokksþings. Verði nýi skólinn ekki ríkisrekinn háskóli þá þarf fyrst að ákveða hvort ríkið selji Tækniháskólann eða eigi hann áfram og leggi skólann með gögnum og gæðum inn í nýjan skóla sem yrði til úr þeim báðum. Ef ríkið selur Tækniháskólann er um dæmigerða einkavæðingu að ræða og það er alveg nýr flötur.“

Svo kemur, virðulegi forseti, og rétt að ítreka að ég er að lesa upp úr grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði í Fréttablaðið 28. október sl.:

„Framsóknarflokkurinn hefur ekkert gefið undir fótinn með einkavæðingu í skólakerfinu og það á eftir að ákveða stefnuna. Niðurstaðan er þá að flokkurinn getur ekki staðið að slíku nú. Þá er það síðasti kosturinn, sameinaður skóli sem er ekki ríkisrekinn. Hugsanlega má koma sér undan formlegri samþykkt flokksþings með þeirri leið, en ég held að fæstum muni blandast hugur um að þar væri aðeins verið að fara í kringum samþykktina og opna fyrir almenn skólagjöld í öllu háskólanámi. Til dæmis með því að sameina svo Verkfræði- og raunvísindadeild HÍ við hinn sameinaða skóla, eða sameina lagadeild HÍ við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Þessi leið gengur ekki heldur. Niðurstaðan úr öllum möguleikum er sú sama, að óbreyttri stefnu flokksins getur hann ekki staðið að því að taka upp almenn skólagjöld. Einfalt og skýrt. Engin skólagjöld.“

Virðulegi forseti. Eftir þennan lestur og þegar haft er í huga það sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, hefur sagt er alveg með ólíkindum hvað garmurinn hann Ketill, hvað garmurinn hann Framsóknarflokkurinn getur endalaust látið troða ofan í kokið á sér í þessum málum. Þögn þeirra og fjarvera í þingsalnum fyrir utan hv. varaþingmann, Þórarin E. Sveinsson, sem vissulega er varamannslegur og tekur vörnina þétt og ekki gott að mæta honum á fleygiferð alla vega í sókninni. Þögnin er hrópandi en vafalaust mun hv. þm. Þórarinn E. Sveinsson ræða þetta mál og taka til varna fyrir garminn Framsóknarflokkinn.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin langar mig að fara aðeins yfir umræðuna sem ég vitnaði til áðan. Ég held nefnilega að það hafi ekki verið nægur gaumur gefinn að því sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði þá. Ég tek skýrt fram að ég tel ákaflega mikilvægt að fá þetta inn í umræðuna til að fylgjast með því hvernig því máli reiðir af í þingflokki Framsóknarflokksins um þessar mundir — ég geri ráð fyrir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé löngu búinn að samþykkja þetta. En af því að málið er ekki komið fram spyr maður sig auðvitað að því: Hvað með Framsóknarflokkinn?

Til að hafa það alveg á hreinu vona ég að hv. þm. standi við ákveðin varnarorð í ræðu sinni og Framsóknarflokkurinn standi við en láti ekki svínbeygja sig í því máli eins og öllum öðrum.

Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að það var einmitt hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem orðaði það svo vel forðum þegar hún þurfti að bakka með einhver mál gagnvart Framsóknarflokknum og gagnvart stjórnarstefnunni að menn verði jú að spila með í liðinu. Það sem áður hefur verið sagt skiptir því engu máli því menn verða að spila með.

En í umræðunni um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands sagði hv. þm. m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Tilgangur sameiningar Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands er réttmætur. Efla á samskipti atvinnulífs og skólans og mun það án efa vera forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni í atvinnulífi hér á landi.“

Síðan var gripið fram í fyrir henni og sagt: „Hvað með skólagjöldin?“ Ekkert svar fékkst við því en áfram skal haldið með ræðu hv. þm.:

„Þetta hljómar vel og við höfum í mörg ár talað um að efla þurfi tæknimenntun í landinu. Ég tel engan vafa leika á því að sameiningin muni stuðla að því.“

Svo kemur það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, með leyfi forseta:

„Hins vegar eru mörg atriði sem við þurfum að skoða og eiga eftir að koma til umræðu í þinginu. Þar ber auðvitað hæst umræða um skólagjöld. Í viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í gær er gert ráð fyrir að háskólinn hafi heimild til að innheimta skólagjöld. Það er engin nýbreytni í tilfelli Háskólans í Reykjavík en nýtt fyrir Tækniháskólann. Þar eru námsleiðir sem hingað til hafa ekki borið skólagjöld. Má þar nefna heilbrigðisgreinar eins og geislafræði, meinafræði og t.d. frumgreinadeild.“

Að lokum segir hv. þm. sem taka má undir:

„Ég ítreka að ég fagna sameiningunni og tel að í henni felist mikil tækifæri. En málið á eftir að fá þinglega meðferð og við munum og eigum eftir að fá að sjá nánari útfærslu sem og röksemdafærslu málsaðila.“

Virðulegi forseti. Ég hélt að hæstv. menntamálaráðherra mundi vera í salnum því ég hafði hugsað mér að leggja fram spurningar fyrir hæstv. ráðherra um hvort til stæði að lána fyrir skattheimtunni upp á 140 millj. kr. frá Lánasjóðnum. Jafnframt langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði verið reiknað út, ef ekki verður lánað fyrir þeim, hvað námsfólk þarf að þéna miklu meira á sumrin til að eiga fyrir þessum nýju 140 millj. kr. sköttum. Mér gefst kannski tækifæri til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um þetta á eftir í andsvari þegar hún heldur síðustu ræðu sína.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég segja um skattahækkunina. Mér finnst afar eftirtektarvert að menntamálanefndarfólk stjórnarflokkanna, sem ég hef talað um að er ekki viðstatt, lætur ekki sjá sig þó að tveir séu erlendis á vegum þingsins. Hv. þingmenn Kjartan Ólafsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Hjálmar Árnason hafa ekkert látið sjá sig, og eins og ég hef áður sagt og vil ítreka þá skil ég vel að Framsóknarflokkurinn láti ekki sjá sig vegna þess að aumt er þeirra hlutverk og vafalaust erfitt að réttlæta það.

Virðulegi forseti. Af því að ég sé að hæstv. menntamálaráðherra er kominn, sem ég þakka kærlega fyrir, vil ég spyrja að því hvort það eigi að lána frá lánasjóðnum fyrir þessari 140 millj. kr. skattheimtu. Ef svo er ekki langar mig að heyra hvort það hafi verið skoðað í menntamálaráðuneytinu hvað námsmenn, sem þurfa að greiða þessar 140 millj. kr. í aukna skattheimtu, þurfi að afla miklu meiri tekna, hvað þeir þurfi að hafa í laun til að eiga eftir fyrir þeim 140 millj. kr. sem ríkisstjórnin leggur á námsmenn í landinu. Eins og ég sagði áðan: Vont er þegar þeir hafa kosið að ráðast á námsmenn með þessum hætti og auka skattheimtu eins og gert hefur verið að umtalsefni.