139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

kosning til stjórnlagaþings -- fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[11:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einmitt ræða fundarstjórn forseta og kosningar til stjórnlagaþings. Eins og kunnugt er hafa komið fram athugasemdir frá fulltrúum blindra varðandi fyrirkomulag kosninganna. Lögmaður nokkurra blindra einstaklinga hefur dregið í efa að kosningin eins og hún er fyrirhuguð sé lögleg. Hann hefur gert þá kröfu að fulltrúar kjörstjórnar fari ekki með blindum inn i kjörklefa.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag kemur fram að hæstv. dómsmálaráðherra vill leita lausnar til þess að koma til móts við sjónarmið þessa fólks og ég er honum hjartanlega sammála. Vandinn er sá að til að það sé hægt þarf að breyta lögum um kosningar til Alþingis. Í tilefni af því hef ég lagt fram frumvarp ásamt félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem reyndar var lagt fram á árunum 2005 og 2006, til að tryggja að sú framkvæmd sem ég og hæstv. ráðherra erum (Forseti hringir.) sammála um að skuli viðhöfð verði lögleg. Ég óska eftir því að hæstv. forseti breyti dagskrá fundarins og taki málið á dagskrá þannig að kippa megi þessu vandamáli í liðinn.