139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

setning neyðarlaga til varnar almannahag.

96. mál
[18:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hv. flutningsmanni og Hreyfingunni til hamingju með að hafa komið fram með þessa tillögu um það sem þau kalla neyðarlög til varnar almannahag. Það er farið ágætlega yfir þær aðgerðir sem Hreyfingin telur að geti gagnast heimilunum í landinu en ég sakna þess svolítið í þessum tillögum, sem eins og nafnið ber með sér eiga að beinast að því að bæta almannahag, að ekkert sé fjallað um ríkissjóð og hvernig bæta megi stöðu hans og að ekkert sé fjallað um fyrirtækin.

Allir sem hugsa málið vita að eitt helsta vandamál heimilanna í dag er hve ráðstöfunartekjur hafa minnkað gríðarlega mikið. Hjá sumum hafa ráðstöfunartekjur minnkað af því að fólk hefur misst vinnuna, hjá öðrum hafa þær minnkað vegna þess að það vinnur minni yfirvinnu, meðallaunin eru mun lægri, en hjá öllum hafa ráðstöfunartekjur minnkað vegna þess að skattar hafa hækkað, sem þýðir að í staðinn fyrir að fólk geti notað fjármuni sína í afborganir og lifibrauðið eru þeir notaðir til að fjármagna ríkissjóð. En hvað um það.

Hér eru beinar tillögur og gamlir kunningjar hvað varðar leiðréttingu á skuldum heimilanna, það er allt gott og vel. Það hefur reyndar komið fram að þetta gæti orðið erfitt í framkvæmd. Ég var mjög fylgjandi því að skorið yrði flatt af skuldum heimilanna meðan það var hægt án kostnaðar fyrir ríkissjóð eða lífeyrissjóðina. Sá gluggi lokaðist þegar skilið var á milli gömlu og nýju bankanna. Ein stærstu mistök sem núverandi ríkisstjórn gerði var að hafa þá að háði og spotti sem vildu færa þessar afskriftir yfir til heimilanna en því miður er það ekki hægt lengur.

Sú aðgerð að færa til baka vísitölu eða skera af 20% eða hvað sem það er, þetta verkar allt á sama hátt, mun lenda á Íbúðalánajóði og lífeyrissjóðunum að mestu leyti. Þeir sem fjármagna Íbúðalánasjóð eru ríkissjóður og þá er hægt að taka peningana af ríkissjóði eða einfaldlega af þeim sem fjármagna Íbúðalánasjóð að langmestu leyti, þ.e. lífeyrissjóðirnir.

Auðvitað væri hægt að fara aðeins lengra og segja: Lífeyrissjóðirnir eru að skila til baka hækkun eigna sem menn hafa orðið fyrir í kjölfar hrunsins, skila því til baka til almennings. En þá kemur það náttúrlega eins og við vitum öll niður á lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega og skapar annað vandamál sem þarf að leysa og ríkissjóður yrði að leysa í framtíðinni. Þetta eru rök sem hafa komið fram. Ég held aftur á móti að sú hugmynd að færa afskriftirnar sem bankarnir fengu yfir til almennings sé góðra gjalda verð og það er það sem menn hafa verið að gera og verður eflaust gert í framtíðinni. Ég skal ekki segja hvort allar afskriftirnar fara en alla vega mun mikið af afskriftunum fara og þeir eru ekki of góðir til að skila þeim afskriftum til almennings.

Önnur vandamál felast í því að fara þessa leið inn í lífeyrissjóðina og jafnvel til fjármagnseigenda ef við getum sagt sem svo. Allt er þetta háð einhvers konar eignarrétti og eignarréttur er tryggður í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að eignarréttur er einn af hornsteinum samfélagsins. (Gripið fram í.) Við getum lesið mjög vel í hinni merku bók eftir Hernando de Soto um það hvernig fer fyrir þjóðfélögum þegar eignarréttur er ekki skilgreindur á réttan hátt eða ekki virtur. Jafnframt höfum við séð hvernig ríkjum sem hafa afnumið eignarrétt að einhverju eða öllu leyti hefur farnast. Ég vil ganga svo langt að halda því fram að eignarréttur, vel skilgreindur og varinn eignarréttur sé ein af merkilegri uppgötvunum mannsins og sé algjörlega grunnurinn að þeirri þjóðfélagsgerð sem við búum við og gerði m.a. iðnbyltinguna mögulega o.s.frv.

Það þarf að tryggja öllum eignarrétt, það er alveg hárrétt, og dómstólar eiga að gera það. Við sáum það mjög greinilega núna með gengisdómnum svokallaða að það var ekki eingöngu passað upp á fjármagnseigendurna heldur líka skuldarana, með gengisdómnum sáum við að eignastaða þeirra var leiðrétt.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni þar sem vitnað er í lögin sem sett voru í október 2008, segir, með leyfi forseta: „… væri fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Þessum heimildum var beitt til bjargar íslenska fjármálakerfinu. Þetta var ríkissjóði dýrkeypt og þjóðin situr uppi með tapið af þeirri aðgerð.“

Þetta er gríðarlega algengur misskilningur, þetta er einhvers konar mýta sem er í gangi á Íslandi að ríkissjóður hafi þurft að bera einhverjar gríðarlegar byrðar út af bankakerfinu. Það er alls ekki rétt. Inn í bankakerfið fóru eiginlega engir fjármunir. (Gripið fram í: … Seðlabankanum?) Aftur á móti var fært til fjármagn innan ríkisins úr hægri vasanum í þann vinstri í Seðlabanka Íslands, en þetta ákvæði var ekki notað til að fjármagna það, alls ekki, og það eru ekki þessar gríðarlegu byrðar sem verið er að tala um. Þetta er skuldabréf til 20 ára á 2% vöxtum eða eitthvað svoleiðis sem mun hverfa í verðbólgu með tímanum. (Gripið fram í: Það er engin verðbólga hérna.) Þetta er því svona leiður misskilningur.

Hins vegar varð ríkissjóður fyrir gríðarlega miklu áfalli vegna þess að atvinnustarfsemin beið mikinn hnekki í þessu öllu saman sem leiddi til þess að skattstofnarnir skruppu saman en eyðslan var sú sama þannig að myndaðist mikið gat. Það gat þurfti að fjármagna og það eru þær skuldir sem við stöndum frammi fyrir, ekki eins og gefið er til kynna hér að hafi verið settar inn í bankakerfið.

Nú á ég bara örstuttan tíma eftir. Talandi um eignarrétt og að virða hann, eitt sem við Íslendingar gerðum við fall bankanna var að þrátt fyrir ákvæði 72. gr. brutum við eignarrétt á lánardrottnum með neyðarlögunum þegar við afskrifuðum í kringum 8 þúsund milljarða kr. og því hefur verið lýst sem sennilega einu réttu leiðinni. Menn tala stöðugt meira um það, nú seinast Paul Krugman, samfylkingarmaður og nóbelsverðlaunahafi. Flest ríki gerðu þetta þannig að þau veltu byrðunum yfir á skattgreiðendur, við veltum byrðunum yfir á lánardrottna. En þessi tillaga er gott framtak.