141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég hef verulega miklar áhyggjur af svari hæstv. forsætisráðherra. Hún segir að við höfum full tök á málinu vegna þess að Seðlabankinn geti sett reglurnar og að efnahags- og viðskiptanefnd geti svo sem alveg fengið að fylgjast með, þingið geti fengið að vera á kantinum. Hér er um að ræða útgreiðslur gjaldeyris upp á hundruð milljarða.

Þegar Seðlabankinn var að spá fyrir um þróun þessara mála fyrir einungis örfáum árum, árið 2009, sýnist mér að það hafi verið vanreiknað um um það bil 800 milljarða hvað þrýstinginn snertir. Það er algerlega skýlaus krafa að þingið verði ekki bara upplýst heldur verði einnig haft með í ráðum þegar menn búa um hnútana í svona mikilvægum hagsmunamálum og að það eigi síðasta orðið. Það er engan veginn ásættanlegt þegar um jafnstór mál er að ræða að þingið sitji hjá, sætti sig við að fá að fylgjast með og eftirláti einum manni endanlega ákvörðun í málinu. (Forseti hringir.) Það er engan veginn ásættanlegt.