143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil benda á í sambandi við þessar tölur um virðisaukaskattinn. Þar er verið að sýna að neysluskattar hafa skilað sér betur inn síðari hluta ársins en gert var ráð fyrir. Fram eftir ári héldu menn vitanlega að sér höndum þar sem búið var að gefa út stór loforð og eftir kosningar biðu menn eftir að það loforð yrði uppfyllt. Sem betur fer er þetta aðeins farið að glæðast og það skilar sér í þessum tölum.

Einnig vantar inn í þessar tölur um virðisaukaskattinn 500 milljónir sem voru ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar þegar hún ákvað að neysluskattur til þeirra sem nýta sér hótel- og gistiþjónustu skyldi vera á sama stað og matvæli.