143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér leggur minni hluti fjárlaganefndar til að tekið verði inn aftur að fjarskiptasjóður fái þær mörkuðu tekjur vegna 4G-útboðs og þar með sé styrkt lögbundið hlutverk sjóðsins til að tryggja fjarskipti og netsamband um allt land og háhraðatengingar. Mér finnst þetta vera góð skilaboð frá minni hluta fjárlaganefndar, sem ég styð heils hugar þar sem ég hef flutt tillögu ásamt fleirum um að hraða háhraðatengingu um dreifbýli landsins og það verði kortlagt og klárað innan fjögurra ára. Ég satt að segja skil ekki þau skilaboð ríkisstjórnarinnar til landsmanna sem búa á þessum svæðum að draga það fjármagn úr fjarskiptasjóði og setja í ríkissjóð almennt og ætla þá með einhverjum hætti að gera eitthvað annað síðar meir. Ég trúi ekki öðru en menn bakki með þetta og haldi áfram að byggja upp háhraðatengingu um dreifbýli landsins. (HöskÞ: … stefna sem var mótuð á síðasta kjörtímabili.) (SJS: Nei.) (HöskÞ: Víst. Það var fjárlaganefnd.)(Gripið fram í.)(HöskÞ: Víst.) (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Umræður eiga að fara fram úr ræðustól Alþingis, ekki úr þingsalnum.)