144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur. Sú tala sem er orðin að aðalumræðuefninu hér vegna þessa frumvarps er fengin eftir langar samræður við Seðlabankann og þykir vera sú upphæð sem er hæfileg og rúmist vel innan þeirrar hugsunar sem þetta mál er lagt fram í. Mér finnst það vera aðalatriði málsins.

Ég vil líka koma því á framfæri að þessi færsla er í sjálfu sér í engu samhengi við þá flýtingu á skuldaaðgerðunum sem við höfum nýlega kynnt, enda hljóta menn að hafa tekið eftir því að heildarafgangur á fjáraukalögunum er um 43 milljarðar eins og málið var lagt fyrir við 2. umr. þrátt fyrir skuldaaðgerðirnar. Tekjufærslan hér er um 21 milljarður. Þannig að það er nú ekki meginástæðan fyrir því að við förum í flýtingu á skuldaaðgerðunum, enda mundi í því samhengi ekki miklu skipta hvort við mundum ráðast í greiðslur sem tengjast því í lok þessa árs eða upphafi næsta upp á þann sparnað sem þar er verið að sækjast eftir.

Ef til þess kemur að Seðlabankinn kallar (Forseti hringir.) eftir eiginfjárframlagi mun það einungis (Forseti hringir.) geta gerst eftir (Forseti hringir.) umfjöllun í þinginu, þ.e. annaðhvort á grundvelli heimildar eða á grundvelli sérstakrar ákvörðunar.