150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í morgun varð uppi fótur og fit í umhverfis- og samgöngunefnd út af meintum leka úr nefndinni á skýrslu sem nefndin fékk kynningu á í síðustu viku. Fram kom í nefndinni að fjölmiðill hefði fjallað nákvæmlega um efni skýrslunnar þrátt fyrir að ekki væri búið að skila henni til ráðherra. Ásakanir flugu fram og til baka og meintur lekandi beðinn um að stíga fram og viðurkenna ábyrgð sína. Þannig er að þegar skýrslan var kynnt fyrir nefndinni var beðið um trúnað, sem er svo sem gott og blessað, þar til búið væri að klára og afhenda skýrsluna. En þegar betur er að gáð og spurt út í það hverjir hafi fengið skýrsluna virðast drög að skýrslunni hafa farið ansi víða undanfarinn mánuð eða svo.

Það sem vakti athygli mína í þessu máli er hins vegar annað, þ.e. hvaða væntingar fólk hefur um trúnað í störfum þingsins, hvaða væntingar einstakir fulltrúar almennings hafa um trúnað annarra fulltrúa almennings um störf sín og þeirra. Trúnaður á vissulega rétt á sér í ýmsum tilfellum og reglurnar um nefndarfundi eru skýrar, að ekki sé vitnað beint í hver sagði hvað. Fátt ef ekkert á hins vegar að vera bundið trúnaði í störfum þingsins vegna þess fyrir hverja við vinnum, fólk sem við vinnum fyrir, fólk sem við skoðum gögn og rök fyrir, fólk sem við tökum ákvarðanir fyrir. Fólkið hérna fyrir utan Alþingi á að fá að sjá þau gögn sem við byggjum ákvarðanir okkar á nema þau varði þjóðaröryggi, friðhelgi einstaklinga eða álíka.

Við höldum minnisblöðum sem við fáum frá ráðuneytum um þingmál allt of lokuðum, það á að birta þau opinberlega. Allt of mikið af vitnisburði er bundið við munnlegan flutning og getu nefndarmanna til að vitna efnislega rétt í hann. Við þurfum meira gagnsæi og minni trúnað því að trúnaður býr til umhverfi leyndarhyggju og spillingar. Við þurfum að jafnaði að hafa nefndarfundi Alþingis opna. Rökin á móti því eru að þá þori fólk ekki að segja hreinskilnislega frá. Það eru rök sem komu fram á fundi nefndarinnar í morgun. En skilur fólk ekki hvaðan sá ótti kemur? Við þurfum nefnilega að tækla orsökina að því, ekki að setja trúnaðarplástur á til að vernda ofbeldið. Fólk á ekki að þurfa að hika við að segja satt og rétt frá fyrir nefndum Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)