150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil ræða einn þátt í störfum þingsins sem eru ýmis samskipti við stjórnsýsluna, ekki síst um farveg fyrirspurna og skýrslubeiðna til ráðherra. Svo háttar til að ég var 1. flutningsmaður ásamt 12 öðrum þingmönnum upphaflega að beiðni til utanríkisráðherra um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þau áhrif sem samningurinn hefur haft hér á landi. Var beiðnin samþykkt á Alþingi í þrígang, fyrst vorið 2018 og tvisvar síðan. Ráðherra setti á laggirnar þriggja manna starfshóp sem skilað hefur skýrslu sem margt gott má segja um en ég fjallaði allítarlega um hana í umræðum 14. október sl. Athygli vekur að í erindisbréfi sem ráðherra setti starfshópnum er vikið frá skýrslubeiðninni og lagt fyrir hópinn að taka saman yfirlit yfir og leggja mat á þann ávinning sem Ísland hefur haft af þátttökunni í EES-samstarfinu og þau helstu úrlausnarefni sem stjórnvöld hafa tekist á við í framkvæmd EES-samningsins. Ekkert um kosti og galla, herra forseti, sem er lykilþáttur í skýrslubeiðninni.

Skýrslan ber að sjálfsögðu með sér að hún er samin samkvæmt forskrift ráðherra í erindisbréfi. Þetta vekur vitaskuld upp þá spurningu hvort ráðherra hafi í reynd svarað skýrslubeiðninni. Einnig má spyrja hvort vanalegt sé að ráðherra lagi erindisbréf að hentugleikum. Af því tilefni leyfi ég mér að fara fram á það við hv. forsætisnefnd að hún láti gera úttekt á því hversu algengt er að ráðherrar víki með þeim hætti sem hér er raunin frá efni skýrslubeiðna. Niðurstaðan gæti orðið athyglisverð hver sem hún kann að verða.