150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ríkisstjórnin ákvað í síðustu viku að grípa til tiltekinna aðgerða til að auka traust á íslensku atvinnulífi, eins og það var kallað. Þar var m.a. nefnt að hugað yrði sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við Samherjamálið og að skattyfirvöldum yrði gert kleift að auka mannafla tímabundið til að sinna fyrirliggjandi verkefnum á skjótan og farsælan hátt. Ég efast ekki um að starfsfólk ákæruvaldsins er sjálfstætt í störfum sínum. Það þarf hins vegar að tryggja að staðan sé ekki sú að þegar upp koma stór mál sem krefjast sérstaks átaks þurfi sérstakan velvilja ríkisstjórnarinnar til að peningar fáist. Réttarkerfi okkar, rannsakendur og dómstólar, verða að vera fjármögnuð til að bregðast við hverju sem á dynur án þess að vera háð aðkomu stjórnvalda, velvilja og eftir atvikum öðrum skoðunum stjórnmálamanna.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem fyrrverandi forsætisráðherra er ritstjóri, er t.d. vísað í Samherjamálið annars vegar sem fjarlægs máls sem tengist „þorskum eða þilförum“ — „eins og uppistand neðan úr Namibíu“ — og hins vegar sem „nokkurra daga gamla uppsetningu á RÚV-fjölunum“. Hver veit nema fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins eigi sér skoðanasystkini hér á þingi, a.m.k. varðandi þetta mál?

Það er einfaldlega afleitt upplegg að stjórnvöld ræði og taki ákvarðanir um fjárveitingar í tengslum við rannsóknir á einstaka málum. Sjálfstæði ákæruvaldsins líður verulega fyrir slíka nálgun. Það hlýtur að vera markmiðið að stofnanir hafi almennt séð burði til að sinna þessum málum vel. Á Alþingi í gær lét Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þau orð falla að það ætti ekki að nálgast þennan málaflokk þannig að einstök mál væru háð pólitískum velvilja eða skoðunum stjórnmálamanna yfir höfuð. Ég tek fyllilega undir þau orð. Því er miður að orðum fjármálaráðherra fylgja síðan allt aðrar aðgerðir stjórnvalda (Forseti hringir.) vegna þess að kerfið býður ekki upp á annað en aðkomu stjórnvalda þegar upp koma sérstök og yfirgripsmikil mál. Þessar stofnanir sem um ræðir þurfa að hafa burði til að fara inn í þau verkefni sem koma upp án þess að þurfa að treysta á að fá úthlutað sérstöku fjármagni, ekki síst þegar upp koma stórar og flóknar rannsóknir sem mikilvægt er fyrir okkar samfélag að eigi sér stað óháð skoðunum ráðandi stjórnvalda.