151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

kostnaður við ný markmið í loftslagsmálum.

[10:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fjárlögin og fjármálaáætlunin hljóta náttúrlega að miða við þessa 40% losun og það á enn eftir að útskýra hvernig á að fjármagna þá viðbót, þótt styðji ég hana vissulega. Það er rétt að það hefur að vísu orðið talsverð aukning, 30 milljarða kr. aukning, í umhverfismálin en helmingurinn rennur til ofanflóðasjóðs. Það hefur orðið 80 millj. kr. aukning milli umræða hérna um fjárlögin en af því fara stórar upphæðir til minkabænda, þannig að hér fara ekki saman hljóð og mynd. Hæstv. fjármálaráðherra verður einfaldlega að svara mér: Hvernig ætlar hann að fjármagna þetta? Er hann að ávísa þessu yfir á næstu ríkisstjórn eða er þetta kannski vísbending um að hæstv. forsætisráðherra sé farin að undirbúa það að hún þurfi að leita sér að nýju stjórnarmynstri til þess að hún geti unnið með flokkum sem svo sannarlega styðja loftslagsmarkmið hennar? Hæstv. fjármálaráðherra verður einfaldlega að gera grein fyrir því hvernig (Forseti hringir.) hann ætlar að koma með peninga inn í þessar aðgerðir á næsta ári.