151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram aftur að ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru þúsundir heimila, þúsundir fjölskyldna, sem eiga gríðarlega mikla hagsmuni undir hér og það skiptir öllu fyrir okkur að fá niðurstöðu sem fyrst. Þess vegna munum við láta reyna á þann möguleika að fá Hæstarétt til að taka málið beint fyrir. Það kemur í ljós hvort það gengur eftir.

Hér er velt upp ýmsum lagalegum álitamálum sem ég treysti mér ekki til að úttala mig um og dómstólar verða á endanum að taka á. En ég verð að segja varðandi hin lánin, þ.e. þau lán sem ekki voru með uppgreiðslugjaldi og voru með aðeins hærri vöxtum, að mér þætti það býsna langt gengið ef þeir sem völdu þá leið myndu fá að njóta vaxtakjaranna af lánunum sem ekki áttu að vera með uppgreiðsluheimild, eða a.m.k. með uppgreiðslugjaldi, vegna þess að það eina sem Íbúðalánasjóður var að reyna að gera var að fleyta áfram kjörum sínum til viðskiptamanna sinna og var með þá bakfjármögnun sem ýmist var uppgreiðanleg eða ekki fyrir sjóðinn. Það væri enn meiri skellur fyrir ríkissjóð að þurfa að deila lánakjörum sjóðsins á óuppgreiðanlegum lánum með þeim sem vildu hafa uppgreiðsluheimild hvenær sem er.