151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir ræðu hans áðan. Við höfum sannarlega haft í mörg horn að líta við undirbúning og í meðförum nefndarinnar fyrir 2. umr. fjárlaga. Ég velti fyrir mér núna í beinu framhaldi af því sem hefur komið fram áður — ég var kannski með allt annað í huga þegar ég kom hingað upp — en nú langar mig að fylgja eftir því sem hv. þingmaður nefndi hér áðan þegar hann talaði um 69. gr. almannatryggingalaga og nú sé þessi leiðrétting, lögbundin leiðrétting, að komast til almannatryggingaþeganna eins og lög gera ráð fyrir, sem sagt 3,6% 1. janúar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann í vafa um það sem stendur í 69. gr. um að þessi leiðrétting eigi að fylgja launaþróun í landinu sem er núna 7,1% frá október árið 2019 til október 2020? Það munar um minna fyrir lægstu tekjutíundirnar ef við fylgdum bara lögunum og værum ekki að reyna að hártoga það.

Mig langar að spyrja um annað, þ.e. jólabónus, við áttum víst 1,1 milljarð kr. í afgang af 4 milljarða kr. framlagi sem átti að fara í kerfisbreytingar í almannatryggingakerfinu og þá sérstaklega með tilliti til öryrkja. Við erum líka með, eins og fram hefur komið, mjög fátæka eldri borgara og ég spyr: Nú erum við að fara að taka út fjáraukann, sennilega í næstu viku, mun hv. formaður fjárlaganefndar aðstoða okkur öll, sem ég held að hvert og eitt einasta okkar myndi í rauninni vilja, við að veita öldruðum sem sitja við sama sultarborðið og fátækustu öryrkjar þennan 50.000 kr. jólabónus? Mun hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar hjálpa til við að gera það að veruleika?