151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi kemur uppistaða breytingartillagnanna, 53 milljarðar af 55, frá ráðherrunum og er ákveðin í Stjórnarráðinu. Það skjal breyttist ekkert eins og hv. þingmaður veit. Eftir alla okkar vinnu er meiri hlutinn til í að gera 2 milljarða kr. breytingar og engar grundvallarbreytingar. Fyrst hv. þingmaður nefnir það þá styðjum við í stjórnarandstöðunni einmitt góðar breytingartillögur stjórnarinnar. Að sjálfsögðu styðjum við að bóluefni sé keypt. Að sjálfsögðu styðjum við að settir séu auknir fjármunir í framhaldsskólana og háskólana. Auðvitað styðjum við að sanngirnisbætur verði hækkaðar. Þetta eru góðu breytingartillögurnar.

En hvernig stendur á því að hv. þingmaður er þá ekki til í að styðja eitthvað af breytingartillögum okkar sem út af standa? Ég sé hér hv. þingmann úr sama flokki sem gat um Ríkisútvarpið en það er að fá lækkun milli ára. Við leggjum fram breytingartillögu á morgun um að bæta Ríkisútvarpinu upp tekjutapið. Vinstri grænir hafa sagt að þeir styðji það að framlög til Ríkisútvarpsins haldist óbreytt. Þau gera það ekki að öllu óbreyttu. Það verður atkvæðagreiðsla um tillögu á morgun um það og verður sem dæmi fróðlegt að sjá hvort Vinstri grænir greiða ekki einfaldlega atkvæði með þeirri tillögu.

Ég er ekki að biðja um að þið staðfestið eða styðjið allar tillögur okkar. En á þriggja, fjögurra ára tímabili hafið þið fellt meira og minna allar tillögur okkar, (Gripið fram í.) gömlu tillögurnar ykkar, liggur við. Margar af þessum tillögum eru raunhæfar, eins og með Tækniþróunarsjóðinn, mér finnst það bara svo gott dæmi, og eins með Landspítalann. Af hverju getum ekki bara sameinast um að hreinsa hallann? Af hverju getum við ekki sameinast um eitthvað af þeim tillögum (Forseti hringir.) sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram? Af hverju þarf alltaf að vera þessi skotgrafahernaður? (Forseti hringir.) Allt sem við komum með er fellt af því að það kemur frá okkur í stjórnarandstöðunni. (Forseti hringir.) Ég hélt að við værum komin upp úr þessu.