151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að draga fram í andsvari mínu er að verið er að leggja til fullt af breytingartillögum og sumar þeirra koma frá ríkisstjórninni sem sér um stefnumótun í málaflokkunum. Ég get nefnt sem dæmi 340 millj. kr. framlag til viðbyggingar við Njarðvíkurhöfn. Það er gríðarlega mikilvægt innspýtingarverkefni á svæði sem á við mikið atvinnuleysi að stríða. Ég held að allir séu sammála um mikilvægi þess þótt það komi frá ríkisstjórninni. Það sem ég er að benda á og draga fram er að við erum sammála um mjög stóran hluta þessara breytingartillagna, í það minnsta vel flest.

Hins vegar kom það einnig fram í ræðu hv. þingmanns að hann telur vanta meira fjármagn í, ja, mér liggur við að segja alla málaflokka. Spurning mín til hv. þingmanns er því: Telur hann, nú þegar við erum að bæta 55 milljörðum við á milli málaflokka og það er fullt af tillögum sem allir eru sammála um, að leiðin sé einfaldlega sú að bæta endalaust við þegar við erum í þeirri stöðu að við erum að taka þessa fjármuni að láni? Hér erum við með tillögur sem við erum langflest sammála um. En hv. þingmaður virðist einfaldlega bara vilja bæta aðeins meiru við það sem er verið að gera. Og það er verið að gera mjög mikið.