151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég sagði að þetta væri snúið, og það er sannarlega snúið, þar erum við hv. þingmaður vissulega sammála. Í fyrsta lagi vil ég segja að í allri þessari umræðu, og hv. þingmaður gerði það alls ekki, þarf að halda því mjög vel til haga hvað er einkavæðing og hvað er einkarekstur. Viðreisn hefur talað mikið fyrir því að hægt sé að nýta mun meiri tækifæri, t.d. í heilbrigðiskerfinu, til einkarekstrar en alls ekki einkavæðingar. Það er bara allt annar hlutur. Einkavæðing, þar sem hið opinbera, okkar sjóðir og við öll komum ekkert að því að tryggja gæðin og eftir atvikum fjármagna, er ekki aðferðafræði sem mér hugnast. Hv. þingmaður nefndi nokkur fyrirtæki, ég tek það fram að við eigum ekki neinn lista í Viðreisn þar sem við erum búin að teikna þetta allt saman upp, en það er góð ábending, við þyrftum sennilega að koma honum upp. En auðvitað getur maður spurt sig varðandi Póstinn, af því hann var sérstaklega nefndur, sem hefur ekki beint verið, án þess að ég vilji taka stórt upp í mig, alveg til fyrirmyndar í allri sinni háttsemi og rekstri. Það er í höndum ríkisins. Ég held að ekkert í eðli þeirrar starfsemi kalli á það að ríkið reki þjónustu af því tagi. Ríkið á hins vegar að tryggja hana. Það er allt annað. En ég er ekki viss um að það sé best að vera með fyrirtæki sem rekið er undir stjórn sem við pólitíkusarnir skipum í. Ég er ekki viss um að það sé besta fyrirkomulagið, svo ég sé nú alveg ærlegur og vil ekki kasta neinum steinum í átt að neinum með þessu. En ég held að þetta sé staðreynd.