151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um atriði sem ég hef spurt nokkrum sinnum um í þessari fjárlagaumræðu. Það varðar einmitt lífskjarasamningana, þ.e. lífskjarasamninga fyrir fólkið sem er á framfærslu hins opinbera eða er í rauninni launþegar ríkisins án þess að hafa verkfallsrétt. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að það fólk sem er á atvinnuleysisbótum eða lífeyri, annaðhvort aldraðra eða örorku, fái einungis 3,6% þegar sömu bætur ættu í raun og veru, miðað við lífskjarasamningana sem ríkisstjórnin var aðili að, að hækka um 7,1% til að viðhalda því jafnvægi sem skapað var í lífskjarasamningunum? Krónutöluhækkunin væri þá sérstaklega til að jafna þá sem eru á lægri launum. Er ekki eðlileg krafa að þessir hópar, sem hið opinbera, ríkið, ber ábyrgð á af því að þetta fólk hefur ekki verkfallsrétt og getur ekki samið um laun sín í rauninni, fái sambærileg kjör og fengust á almennum vinnumarkaði, af því að 69. gr. almannatryggingalaga segir að fylgja eigi almennri launaþróun? Það er vissulega útreiknað sem meðalþróun yfir öll launin. En þegar horft er á hvernig lífskjarasamningarnir voru útfærðir þá voru þeir sérstaklega launahækkun fyrir þá lægst launuðu. Væri þá ekki eðlilegt að horft væri með sama hætti á þá sem eru á framfærslu hins opinbera?