151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú erum við stödd í 2. umr. um fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár. Við erum dálítið sein með þessi fjárlög en það er kannski ekki óeðlilegt miðað við ástandið. Oft höfum við verið sein og ef það gerist ekki núna þá veit ég eiginlega ekki hvenær. Ég hef setið í fjárlaganefnd frá 2013 fyrir utan síðasta þingvetur og þetta er líklega óvenjulegasti tíminn, bæði í fjárlagagerðinni og öðru, fyrir utan auðvitað alla þessa fimm fjárauka sem við erum búin að sýsla með og lög um opinber fjármál áttu kannski að gera ónauðsynlega.

Félagar mínir í meiri hluta fjárlaganefndar hafa farið ágætlega yfir grunnatriðin en ég ætla að drepa á nokkrum atriðum og byrja á því að ræða hallann. Ríkissjóður verður rekinn með tæplega 320 milljarða kr. halla. Það er fyrst og síðast vegna afleiðinga af Covid-19. Þjóðhagsspá Hagstofunnar er til grundvallar fjárlagafrumvarpi eins og ævinlega og hún gerir ráð fyrir 7,5% samdrætti í vergri landsframleiðslu á árinu en hins vegar tæplega 4% hagvexti á næsta ári. Það byggist á því að slakað verði á sóttvörnum á komandi ári og að ferðamönnum fjölgi lítillega á ný. Þetta er eins og allt háð mikilli óvissu vegna heimsfaraldursins. Frá því að frumvarpið var lagt fram hefur Hagstofan ekki gefið út nýja þjóðhagsspá en það gerði hins vegar Seðlabankinn. Hann gerði ráð fyrir í nóvemberspá sinni að samdrátturinn á árinu hefði verið 8,5% og að hagvöxtur yrði eilítið lægri en gert hefði verið ráð fyrir eða 2,3%. Það þarf svo sem ekki að skafa utan af því að þetta eru ekki bjartsýnar spár, en sem betur fer bjuggum við að því að við upphaf þessa kjörtímabils var staða ríkissjóðs sterk og hún var nýtt til að lækka enn frekar skuldir ríkissjóðs. Samhliða var svigrúm nýtt til að auka uppbyggingu í heilbrigðis- og velferðarmálum, menntamálum og samgöngumálum, til að fylgja eftir metnaðarfullum markmiðum ríkisstjórnarinnar m.a. í umhverfis og loftslagsmálum, auk framlags til að liðka fyrir í kjarasamningagerð, m.a. í formi þríþrepa skattkerfis sem nýtist best þeim tekjulægstu í samfélaginu.

Það er mikilvægt að hafa í huga við þessa umræðu að framlög til langflestra málefnasviða hafa aukist jafnt og þétt á tímabilinu. Þannig hafa framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um tæp 74%, framlög til umhverfismála um ríflega 48% og menningar og lista um ríflega 30%. Ef litið er á krónutölur er aukningin mest á sviði heilbrigðis- og félagsmála enda stöndum við vörð um velferðina, jafnvel þegar í harðbakkann slær. Þá vil ég, eins og sumir hafa gert, þakka öllu okkar framlínufólki, hvort heldur er í heilbrigðisgeiranum eða annars staðar í samfélaginu, sem hefur staðið vaktina fyrir okkur hin. Framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hafa aukist um rétt um 34 milljarða á tímabilinu og framlög til málefna öryrkja og fatlaðra um 15 milljarða, til fjölskyldumála ríflega 214 milljarða og aldraðra ríflega 11 milljarða. Þetta eru háar fjárhæðir og þær skipta máli fyrir fólkið sem býr í þessu landi og bæta líf þess.

Virðulegi forseti. Málefni sveitarfélaganna hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið og þá sérstaklega óánægja einstakra sveitarfélaga og líklega allflestra sem komu á fund fjárlaganefndar með framlag til þeirra úr jöfnunarsjóði. Við þurfum þó að halda því til haga, án þess að gera lítið úr vanda sveitarfélaganna því að hann er sannarlega sums staðar mikill en annars staðar gengur betur, sem betur fer, að framlögin hafa á undanförnum árum aukist um allt að 3,5 milljarða á ári og sveitarfélögin notið þeirrar aukningar. Og af því að sjóðurinn er uppbyggður eins og hann er þá er óhjákvæmilegt að í efnahagssamdrætti dragist framlögin saman. Fjárlaganefnd hefur þó kallað eftir upplýsingum um þróun sjóðsins og hvaða áherslur verði lagðar til með mótvægisaðgerðum. Það er skoðun okkar í meiri hlutanum að mikilvægt sé að bæta minni sveitarfélögum upp þann mikla samdrátt sem ætla má að þau verði fyrir og við höfum nú þegar gert það við ferðaþjónustusveitarfélögin svokölluðu sem byggðu afkomu sína nær alfarið á ferðaþjónustu.

Mig langar að fara ofan í einstaka málefnasvið og byrja á hjúkrunarheimilunum.Við fengum upplýsingar um það að rýmum hefði fjölgað um 185 frá árinu 2017. Á sama tíma voru 119 rými aflögð til að bæta húsnæðisaðstöðu, þ.e. verið var að búa til einbýli. Það þýðir ríflega 7% fjölgun rýma á tímabilinu en á næstu árum er gert ráð fyrir að tæplega 500 rými bætist við. Hér er gert ráð fyrir tæplega 1.700 milljónum til viðbótar í þennan málaflokk til að fjölga rýmum en síðan er líka reynt að taka að einhverju leyti utan um hjúkrunarþyngdina. Það er mikilvægt vegna þess að nú er vinna í gangi í ráðuneyti heilbrigðismála við að fara yfir daggjöldin sem oft hafa verið í umræðunni og ágreiningur hefur verið um, framlögin séu ekki í samræmi við þjónustuna sem farið er fram á. Við töldum að það væri ástæða til að reyna að mæta þessu að einhverju leyti núna þangað til að nefndin verður búin að skila af sér.

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið rætt hafa bændur þessa lands ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirunnar. Sú fækkun sem hefur orðið eða eiginlega algjört brotthvarf ferðamanna hefur dregið úr eftirspurn á markaðnum. Það er talið að hún samsvari rúmlega 30.000 færri neytendum í landinu á árinu. Sala kindakjöts og ullarafurða hefur minnkað töluvert og afurðaverð til nautgripabænda einnig lækkað. Þau úrræði sem stjórnvöld hafa gripið til hafa því miður ekki gagnast bændum til þessa nema að hluta af því að staða greinarinnar var jú erfið áður en Covid skall á. Þess vegna er gert ráð fyrir ríflega 240 millj. kr. framlagi til kúabænda og ríflega 720 millj. kr. framlagi til sauðfjárbænda. Þetta er gríðarlega mikilvægt enda sýndi faraldurinn m.a. fram á mikilvægi þess að við séum sem sjálfbærust með matvæli hér á landi. Það er ekki nema sjálfsagt að styðja við bændur þessa lands. Í dag var einmitt kynnt fyrsta matvælastefna Íslands sem er mikið fagnaðarefni.

Brotthvarf ferðamannsins hefur áhrif á svo margt, m.a. á afkomu Isavia sem hefur því miður leitt til þess að forsendur brustu fyrir samkomulagi ríkis og Isavia þar sem Isavia átti að taka yfir rekstur og viðhald Egilsstaðaflugvallar. Því finnst mér það fagnaðarefni að tekin hefur verið ákvörðun um það í fjárlaganefnd að veita 450 millj. kr. framlag vegna þessa.

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér af mörgu að taka þegar farið er yfir það sem verið er að bæta í í fjárlögum vegna þess að manni finnst við eiginlega vera dálítið að endurskrifa þau. Það hefur líklega sjaldan eða aldrei nokkurn tímann verið bætt jafn miklu í hér á milli umræðna eða í kringum 55 milljörðum.

Skólamálin eru mér kær og þau fengu mikla umfjöllun í nefndinni. Meiri hlutinn leggur til að ríflega 3 milljarðar bætist við til framhaldsskólastigsins og það er m.a. gert til þess að mæta fjölgun í framhaldsskólunum af því að reynslan frá hruni sýndi okkur að hvatning til náms var mjög drjúgt atriði til að byggja upp samfélagið og efnahaginn á ný. Það er líka gert ráð fyrir, og ég held að það sé afar mikilvægur þáttur, úrræði sem heitir Nám er tækifæri sem er ætlað atvinnuleitendum og er tækifæri til þátttöku í námsúrræðum bæði á framhalds- og háskólastigi, auk framhaldsfræðslu. Ég vona svo sannarlega að sem flestir geti nýtt sér það. Á háskólastiginu erum við að bæta við ríflega 2,5 milljörðum á milli umræðna og það er að stærstum hluta vegna áætlaðrar fjölgunar nemenda og eðli máls samkvæmt fer stærsti hlutinn til Háskóla Íslands. En mér finnst gleðiefni að það er vel bætt við framlag bæði til Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Hólum.

Íþrótta- og æskulýðsmál hafa líka verið mikið til umræðu og sérstaklega þau áhrif sem sóttvarnaaðgerðir hafa haft á margvíslegt íþróttastarf því samkomutakmarkanir hafa eins og við þekkjum komið í veg fyrir eðlilega starfsemi íþróttafélaga. Það hefur valdið gríðarlegu tekjutapi þar sem ekki hefur verið hægt að hafa áhorfendur þegar það mátti stunda íþróttir og ekki síður auðvitað auglýsingatekjutap. Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur til að bæta þetta tjón að einhverju leyti í formi stuðnings og hér eru 470 milljónir settar til viðbótar í það verkefni. Þetta er hluti af áformum um 850 millj. kr. stuðning til íþrótta- og æskulýðsfélaga og restin er í fjáraukalögum sem við eigum eftir að taka til 2. umr.

Virðulegi forseti. Það kann að vera að margir reki upp stór augu þegar þeir heyra orðin minkarækt og umhverfi í sömu setningu. En hér er þó engu að síður gerð tillaga um framlag vegna fyrirhugaðs umhverfissamnings við framleiðendur í minkarækt. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti leggja til samtals 30 millj. kr. og í frumvarpi til fjáraukalaga eru lagðar til 50 milljónir. Það er gert ráð fyrir um 160 milljónum á tveimur árum ef báðar tillögurnar ná fram að ganga. Og jú, þetta er ekki lág upphæð og mörgum þykir minkarækt ekki samrýmast umhverfissjónarmiðum, en markmið þessa verkefnis er að kanna kosti minkaræktar til eyðingar á lífrænum úrgangi frá matvælaframleiðendum. Það markmið styður við almenna stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun. Það eru nú þegar komin upp vandamál með förgun á lífrænum úrgangi, sem er uppistaðan í fóðri loðdýra, og viðbúið að það verði verulegt vandamál. Mig langar að segja að auðvitað er þetta mjög gömul hefð. Sum tískuhús hafa t.d. byrjað að nota skinn aftur í ljósi þess hve varan er umhverfisvæn. Nýjar aðferðir t.d. við sútun hafa leitt til þess að bæði mengun og kolefnisspor þessa ferlis hefur minnkað mjög mikið, allt að 90%. Það er í sjálfu sér hægt að tala mikið um þetta en við erum að nota hér að mínu mati betri aðferð en margar aðrar af því að margar óháðar rannsóknir hafa sýnt fram á að framleiðsla á skinnum er umhverfisvænni en framleiðsla á flestum textíl. Það er hægt að vitna í rannsókn sem gerð var við háskólann í Helsinki sem sýnir 80 sinnum minna kolefnisspor eftir minkajakka en t.d. flíspeysu og fleiri rannsóknir er hægt að vitna í. Þannig að ég held að það sé gott og verðugt verkefni að viðhalda þessum rekstri.

Ég veð kannski úr einu í annað, en mig langar til að minnast líka á að umboðsmaður Alþingis óskaði eftir viðbótarstuðningi, m.a. vegna frumkvæðisrannsókna, OPCAT-verkefna og annarra verkefna sem umboðsmaður hefur fengið, og hér er orðið við því. Skatturinn fær líka gott framlag til viðbótar vegna þess að hann hefur fengið í fangið mikið af þeim verkefnum sem hafa orðið til hér; stuðningur í uppsagnarfresti, hlutabótaleið, viðspyrnustyrkir, Allir vinna og fleira sem hefur lent inni á borði Skattsins, sem ég tel líka að sé best til þess fallinn að sinna þessu. Þannig að það er að mörgu að hyggja.

Mig langar líka að nefna að hér er gert ráð fyrir tæplega 500 millj. kr. framlagi til uppgjörs sanngirnisbóta vegna stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður. Við afgreiddum það mál út úr allsherjar- og menntamálanefnd í morgun sem verður vonandi tekið fyrir strax eftir helgi.

Mig langar líka að nefna ýmis smærri verkefni af því að þau gleymast oft í stóru milljörðunum sem við erum alltaf að tala um. Þau skipta hins vegar gríðarlega miklu máli fyrir þá sem þeirra njóta og þau búa til ótrúlega mörg störf. Ekki miklir peningar en búa til ótrúlega mörg störf. Hér er t.d. gerð tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til Hraðsins, sem er nýsköpunarverkefni á Húsavík og er samstarfsverkefni margra aðila og kemur til með að skapa fjöldamörg störf. Það er líka gerð tillaga um tímabundið framlag til Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN vegna frumkvöðlafræðslu og kynninga á íslensku hugviti erlendis.

Við bætum í sóknaráætlanirnar 100 milljónum og það er til viðbótar við það sem áður hefur verið sett á þessu ári í einum fjáraukalögunum þar sem 200 millj. kr. var bætt við. Ég tel að peningarnir séu einna skilvirkastir í sóknaráætlunum í landshlutunum vegna þess að þar forgangsraða landshlutarnir eftir því sem þeir telja best og sveitarfélögin segja líka að þetta séu einna bestu framlögin sem þau njóta.

Við leggjum líka til 25 millj. kr. framlag til samstarfsverkefnis Persónuverndar og sýslumannsins á Norðurlandi eystra um þjónustuver á Húsavík þar sem er verið að fjölga opinberum starfsmönnum um tvo, þ.e. lögfræðing og skrifstofumann. Allt telur þetta, að mínu mati, hvert eitt starf skiptir máli þó að við séum kannski ekki að tala um risastórar fjárhæðir í stóra samhenginu.

Ég vil taka undir með félaga mínum sem hér talaði áðan, Haraldi Benediktssyni, um niðurgreiðslu á dreifikostnaði. Við erum að fara upp í 85% niðurgreiðslu en frá og með 1. september á næsta ári verður niðurgreiðslan 100%. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Við þurfum líka að gæta að því að þetta fari ekki neins staðar í hækkanir á gjaldskrám þannig að þetta komi sannarlega öllum til góða sem þarna eru undir.

Við leggjum til að bætt sé í framlög til náttúrustofanna. Mér finnst ánægjulegt að geta sagt það að við leggjum líka til framlag til Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar, Pálshúss, Flugsafns Íslands, RIFF, Skaftfells, Tækniminjasafns Austurlands og til Barnamenningarsjóðs; stuðningur til margra minni aðila sem hér eru undir sem skiptir verulega miklu máli. Ég held að margir fagni þessum fjármunum og geri mikið úr þeim. Það er líka gerð tillaga um tímabundið framlag vegna endurbóta á húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi og óskað var eftir þarfagreiningu fyrir aðstöðu fyrir jarðræktarrannsóknir á Hvanneyri. Kennsluhúsnæði fyrir garðyrkjunám hefur verið ónothæft undanfarið og með þessu framlagi lýkur vonandi endurbótum á hluta af húsnæði skólans en það þarf auðvitað að ráðast í þarfagreiningu og hönnun á framtíðarhúsnæði og byggingu á aðstöðu fyrir jarðræktarrannsóknir á Hvanneyri. Þær voru fluttar frá Korpu en líða fyrir aðstöðuleysi.

Virðulegi forseti. Við erum líka að setja fjármuni til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar, og leggjum til framlag til Austurbrúar og til fleiri aðila. Ég ætlaði ekki að tala neitt sérstaklega lengi en það er samt svo margt sem hægt er að fara yfir af því að það er oft látið að því liggja að lítið hafi verið gert. En þetta er til viðbótar við svo margt annað. Hér er verið að leggja til að skerðingarmörk vegna barnabóta hækki í takt við lágmarkstekjutryggingu. Það eru í kringum 4,2 milljónir hjá einstæðu foreldri og 3,9 hjá fólki í sambúð. Eins er verið að bæta í vegna félagslegrar aðstoðar fyrir fjölskyldur og í umönnunargreiðslur. Það er einnig lagt til hér að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins fái aukna fjármuni.

Hér er margt annað undir. Samtökin '78, þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun. Það er líka verið að leggja til peninga til lögreglunnar hvað það varðar, fjármuni til að efla úrræði í formi tómstunda og samveru við börn o.s.frv. Neytendasamtökin fá hér líka stuðning sem ég held að sé mjög mikilvægur á þessum tímum. Þau hafa sagt að aukið álag hafi birst í alls konar málum, m.a. sem lúta að flugviðskiptum, leigjendum, iðnaðarmönnum og fleiru. Ég held að það sé mikilvægt að hér sé stutt vel við. Það er tillaga um 15 milljónir til að framlengja stuðning við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu af því að það þykir vera þörf á auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu.

Frú forseti. Ég vil í lokin minna á það og ítreka það enn og aftur að margt af þessu sem ég hef hér talað um, t.d. Austurbrú og fleiri aðilar, er starfsemi sem hið opinbera á að gera samninga við. Við höfum ítrekað lagt á það áherslu í fjárlagavinnunni. Eins með Samtökin '78, Aflið á Akureyri, sem við erum með hér, Grófin, Píeta samtökin, sem grípa fólk þegar því líður allra verst. Það er mikil ásókn, eins og við höfum heyrt, í þessa félagsstarfsemi og hún er okkar samfélagi svo nauðsynleg og ég er sannfærð um það að við viljum öll hafa hana. Þess vegna tel ég einboðið að ráðuneytin sem um þessa málaflokka sýsla setjist niður að samningaborðinu við þessi samtök og passi að starfsemi þeirra sé ekki háð tímabundnu framlagi ár frá ári. Það fer ómæld orka og tími í það og skapar mikla óvissu, ekki bara fyrir starfsfólkið sem vinnur hjá þessum samtökum heldur líka fyrir þá sem nýta sér þjónustuna.

Frú forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Það hefur margt gott verið gert hér og ég er sannfærð um að það er ljós fram undan. Bóluefni er á leiðinni og við erum hér með mikla peninga í bóluefni. Ég held að fólk hafi sjaldan hlakkað til að láta bólusetja sig en ég held að það sé margur í þeim sporum núna. Þannig að ljósið er fram undan. Ég hef trú á því að við vinnum okkur hratt upp úr þessu. Það er ýmislegt hér sem er undir sem styður við viðspyrnuna og ég hef fulla trú á því að það gerist fyrr en seinna.