151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sanngirni er eitt og lögin eru annað, segir löggjafinn. Það finnst mér rosalega áhugaverð fullyrðing hjá hv. þingmanni. Skoðum lög sem voru samþykkt í síðustu viku, um tekjufallsstyrki, 40% tekjufallstyrki fyrir fyrirtæki sem orðið hafa fyrir 60% tekjufalli. Núna er í fjárlögum verið að tala um tekjufallsstyrki fyrir bændur, kúabændur og fjárbændur. Þar hefur virði á þeim vörum sem verið var að fjalla um dregist saman 14%. Samt vorum við að samþykkja lög um tekjufallsstyrki upp á 40–60%. Allt í einu er ekki spurning um sanngirni eða lög. Nú er allt í einu hægt að gera eitthvað allt annað, taka aðra stefnu. Af hverju á ekki það sama við hérna varðandi það fólk sem er á lægstu framfærslu hins opinbera þegar tekin er sérstök ákvörðun um að fara ekki í almennar hækkanir heldur í krónutöluhækkanir fyrir þá sem eru lægst launaðir? Af hverju er ekki hægt að taka sömu sérstöku ákvörðun gagnvart lögum um almannatryggingar og gert hefur verið áður og var gert í eftirhruninu, 2010 eða 2011, þegar var hækkað umfram þau lagaákvæði sem þar er miðað við? Það hefur alveg verið gert áður. Það er hægt að gera það aftur. Hérna erum við með dæmi þar sem tekin var ákvörðun um að fara í krónutöluhækkanir fyrir lægst launaða fólkið, en í fjárlögum núna er ekki tekin sama ákvörðun fyrir nákvæmlega sama fólk.