151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að það komi engum á óvart hvað ég ætla að spyrja um. Nú ætla ég ætla að prófa að spyrja sömu spurningar og ég er búinn að spyrja hérna í allan dag, sem er til fyrrverandi VG-liða og fyrrverandi stjórnarliða o.s.frv., því að ég velti fyrir mér hvort fólk skilji bara ekki spurninguna sem ég er að spyrja. Ég ætla prófa spurninguna núna á einhverjum sem eru utan stjórnar en hefur verið þar innan borðs og veit aðeins hvernig þetta fúnkerar.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann. Ríkisstjórnin gerir lífskjarasamning sem snýst um krónutöluhækkun. Hún hefur þau ákveðnu áhrif á almenna launaþróun að þeir sem eru launalægri hækka meira en þeir sem er launahærri. Svo erum við á hinn bóginn með lög um almannatryggingar sem eiga að fylgja almennri launaþróun, 69. gr., og gera það samkvæmt lögum upp á 3,6% hækkun, sem er augljóslega mun minni hækkun en lægstu launahóparnir fá í lífskjarasamningunum sem eiga að vera um 7,1% hækkun fyrir lægst launaða fólkið þar. Þrátt fyrir muninn þarna á og þó að hann sé vissulega samkvæmt lögum og ýmislegt svoleiðis, er ekki réttlætanlegt, er ekki réttmæt krafa fyrir þá sem eru á framfærslu almannatrygginga að biðja um sömu hækkanir og lægst launuðu hóparnir fengu í lífskjarasamningunum? Ef það er réttmæt krafa, væri þá ekki eðlilegt ef ríkisstjórnin tæki stefnuákvörðun um að gera eitthvað umfram það sem lögin kveða á um, lög um almannatryggingar, eða að þingið myndi gera eitthvað slíkt, grípa til þess? Því að það er augljós brotalöm á því hvernig samningarnir voru gerðir miðað við hvernig lög um almannatryggingar virka.