151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því að hann nefndi mjög fljótlega að ríkisstjórnin hafi verið komin í vanda áður en faraldurinn skall á. Mér finnst það athyglisvert hjá hv. þingmanni og ég hef einmitt komið inn á það og kom inn á það í ræðu minni hvað ríkisreikning fyrir árið 2019 varðar. Þá má greinilega sjá að það fer að hægjast á í hagkerfinu og staða ríkissjóðs fer versnandi. Síðan eru hins vegar mjög aukin ríkisútgjöld fyrir árið 2019 og þegar maður lítur til baka og sér það þá eru þau náttúrlega innstæðulaus. Síðan boðaði ríkisstjórnin aukafjárlög ofan á það og svo kemur uppgjörið sem sýnir 67,4 milljarða kr. verri afkomu miðað við fjárlögin. Samkvæmt ríkisreikningi var afkoman neikvæð um 38,9 milljarða en samkvæmt fjárlögum 2019 átti ríkissjóður að skila jákvæðri afkomu upp á 28,6 milljarða þannig að verri afkoma samkvæmt þessu uppgjöri skýrist að mestu af því að tekjur voru ofmetnar í fjárlögum 2019 um 63,5 milljarða. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin var svo sannarlega komin í vanda þarna og ég hef sagt það hér óhikað að það er greinilega eitthvað að í áætlanagerð ríkisfjármála þegar svo gríðarlegt ofmat verður á tekjum. Þá erum við kannski komin að því sem ég ætla að spyrja hv. þingmann um, nú greiddi hann atkvæði með þessum fjárlögum á sínum tíma, hvort hann beri þá ekki að hluta til ábyrgð á þeim vanda sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) var í raun og veru komin í og sem hann nefndi í ræðu sinni.