151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[20:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, jú, auðvitað deili ég ábyrgð á því en svo er þetta með hvenær vandinn byrjaði, það var dálítið gaman að heyra þetta yfirlit og allar þessar tölur frá hv. þingmanni. Mig langar líka að rifja upp uppáhaldsorðið mitt sem varð næstum þrástef í umsögnum fjármálaráðs við öll þau skjöl sem það fékk til umsagnar, sem var orðið spennitreyja, því að fjármálaráð varaði við því, eiginlega bara frá því að það tók við störfum, að ríkið væri of gjarnt á að gefa frá sér trausta skattstofna, sem sveiflast kannski minna eftir því nákvæmlega hvernig efnahagsástandið er, en stóla þeim mun meira fyrir vikið á veltuskatta sem eðli máls samkvæmt dragast mjög skarpt saman þegar gefur á bátinn. Þannig að þetta er svo sem ekki nýr vandi og fall WOW air árið 2019 hafði töluverð áhrif til hins verra. En síðan held ég að jafnvel þótt við höfum hérna fyrir einu ári horft fram á árið 2020 með nokkuð sterkum varúðargleraugum þá hefði okkur ekki getað órað fyrir hvernig árið 2020 yrði síðan í reynd. Það hefði ekki reynt jafnmikið á spennitreyjuna nema einmitt vegna þess hversu rosalega kreppti að 2020. Það er eitthvað sem við náum vonandi að vinna okkur út úr en ég held að við gerum það ekki með því að ríkið sé að gefa frá sér enn fleiri skattstofna eins og nú er stefnt að.