Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Þolendur kynferðisofbeldis eru meira en vettvangur glæps, er yfirskrift áskorunar til hæstv. dómsmálaráðherra sem fimm hugrakkar konur, sem allar eiga það sameiginlegt að hafa verið beittar ofbeldi og reynt að leita réttar síns, eru í forsvari fyrir ásamt Stígamótum. Krafa þeirra er sú að brotaþolar fái aðild að málum sínum og sambærileg réttindi á við sakborninga í stað þess að vera einungis skilgreindar sem vitni í eigin kærumálum. Þessar hugrökku konur upplifðu vanmátt, útilokun og virðingarleysi í vegferð sinni í gegnum réttarkerfið og að kerfið sjálft væri ómannúðlegt, eins og ein þeirra orðaði það: Það að fara í gegnum kæruferlið var áfall ofan á áfall.

Í meðförum réttarkerfisins verður líkami brotaþola að vettvangi glæps og brotaþoli er smættaður niður í viðfang réttarkerfisins í máli sem er einungis talið varða ríkið annars vegar og sakborninginn hins vegar. Nú á næstu vikum mun hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson leggja fram frumvarp um bætta réttarstöðu brotaþola. Það er einskær von mín að þingheimur allur taki undir áskorun þessara fimm hugrökku kvenna og skori á hæstv. dómsmálaráðherra að stíga skrefið til fulls og veita brotaþolum aðild eða flest þau réttindi sem sakborningar njóta. Jafnframt skora ég á hæstv. ráðherra að nýta tækifærið til þess að stíga skref í áttina að bættu samfélagi með réttarkerfi sem tekur almennilega á kynbundnu ofbeldi. Ef við viljum búa til mannúðlegra réttarkerfi hér á landi sem tryggir betur gæði rannsókna þá gerum við þolendur kynbundins ofbeldis að aðilum málsins, rétt eins og tíðkast í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Ég hvet því landsmenn alla að fara inn á vef Stígamóta og sýna brotaþolum stuðning sinn í verki með því að skrifa undir áskorun þá sem ég nefndi hér áðan.