154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[15:55]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hérna fyrir tveimur árum hækkuðum við húsnæðisbætur umtalsvert, að ég held um einn fjórða, þannig að þær hafa svolítið fylgt þessari vísitölu. Staðreyndin er hins vegar sú, og það getur vel verið að það sé talsverður meiningarmunur á því sem sá sem hér stendur stendur fyrir í pólitík og hv. þingmaður, að ég vil frekar framleiða fleiri hagkvæmar íbúðir þar sem leiguverðið og greiðslugeta fólks dugar til að standa undir þeirri leigu heldur en að vera að borga fólki bætur. Þannig að við erum að leggja hér upp með að þær bætur sem eru þarna í þessum fjárlögum, til að mynda næsta árs, muni duga vel fyrir því umfangi sem húsnæðisbæturnar standa fyrir. En það sem við erum að leggja áherslu á og það sem þessi stefna snýst um er að fjölga hagkvæmum kostum á markaði þannig að við þurfum ekki að vera að setja eftirspurnarhvetjandi bætur út til fólks, heldur auka frekar framboðshliðina.