131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður um skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. fjármálaráðherra varðandi þá stöðu sem uppi er í viðræðum ríkisins og sveitarfélaganna í svonefndri tekjustofnanefnd. Þannig er að það liggur ítrekað við viðræðuslitum vegna þvergirðingsháttar ríkisvaldsins eða fulltrúa fjármálaráðherra í þessum viðræðum, samanber t.d. ummæli bæjarstjórans á Ísafirði á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 1. nóvember sl. sem endurtekin voru í Morgunblaðinu sl. laugardag.

Fram undan er aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sá tími sem menn settu sér til að fá botn í þetta mál er liðinn. Menn töluðu um að fyrir miðjan nóvember þyrftu niðurstöður helst að liggja fyrir þannig að hægt væri að vinna eðlilega að hlutunum í framhaldinu og það er ástæða til að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi það á Alþingi, þar sem löggjafinn og fjárveitingavaldið situr, hvort einhverrar afstöðubreytingar sé að vænta í þessum viðræðum af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins. Það er augljóst mál að ríkisstjórnin undir forustu hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt þeirri taktík að hafa bremsurnar í botni, skrúfa þær fastar, og það er tilgangslaust að halda viðræðum áfram við þær aðstæður. Nú er reyndar búið að endurskipuleggja viðræðunefndina, a.m.k. af hálfu ríkisvaldsins, og nýr fulltrúi kominn úr fjármálaráðuneytinu, skrifstofustjóri þar í stað fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra, og ég tel rétt og skylt að hann upplýsi það hér:

Er að vænta afstöðubreytingar af hálfu ríkisvaldsins og hvenær verður þá ný afstaða, nýjar tillögur eða eitthvert útspil af hálfu ríkisvaldsins kynnt í þessum efnum?