131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:18]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú alls ekki að lengja þessa umræðu mikið en tel mig hafa ákveðið tilefni til örstuttrar ræðu. Hæstv. ráðherra sagði áðan eitthvað á þá leið að ég væri kominn út í einhvern talnaleik þegar ég spurði hvernig þetta sneri að einstökum námsmönnum og hver staða þeirra væri.

Í dag höfum við hlýtt á umræðu sem hefur snúist mest um skólana sjálfa, tekjur þeirra, gjöld og kostnað. Hæstv. ráðherra sagði hér fyrir um 25 mínútum, ef ég man rétt, að menn vildu ekki gegnsæja stjórnsýslu. Ég er að spyrjast fyrir um og vil vita hvernig þetta snýr að nemendunum, þegar kemur að pyngju nemandans sjálfs hvaða möguleika hann hafi til að greiða þessi gjöld og hvaða tekna nemandinn þarf að afla til að geta greitt þessar 45 þús. kr.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna hæstv. ráðherra kallar það talnaleik af minni hálfu. Mér fannst vera komið nóg af umræðunni um skólana almennt, t.d. hvernig þessi uppsetning væri o.s.frv. Það hefur ekki fengist botn í það hvort menn telja þetta þjónustugjöld, innritunargjöld, skráningargjöld eða hvort við erum komin að mörkum skólagjalda, menn eru ekki alveg sammála um það. Sú umræða hafði staðið hér í allan dag og ekki miklu við hana að bæta sem gæti varpað ljósi á þessi mál. Mér fannst hins vegar skorta á að staða námsmannanna væri skoðuð betur og þess vegna fór ég að spyrja út í hvernig þetta kæmi út fyrir námsmanninn sjálfan, hvenær tekjur hans færu að skerðast, en mér sýnist miðað við að hér sé lagt upp með að 1/3 af tekjum námsmanna muni hverfa sem kostnaður við umrædd gjöld, að teknu tilliti til skatta og annarra skyldna sem allir launþegar þurfa að standa skil á. Og ef ég man rétt þá skerðast tekjurnar um 33% þegar þær fara umfram viðmiðunarmörkin, sem mig minnir að séu 300 þús. kr.

Ég tel þetta alveg umræðunnar virði og get ómögulega sætt mig við að slíkt sé kallað talnaleikur þó maður velti fyrir sér hvort það sé eðlilegt að 1/3 af tekjum sem menn mega hafa án þess að verða fyrir skerðingum lánasjóðsins fari í að greiða þessi gjöld. Þess vegna tók ég þetta til umræðu og átta mig ekki á þeirri athugasemd hæstv. ráðherrans að telja þetta einhvern sérstakan talnaleik af minni hálfu, ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra talaði hér sjálf um tölur og upplýsingar sem snúa að heildarkostnaði og taldi nauðsynlegt að gegnsæi væri í stjórnsýslunni. Ég held að ágætt sé að ræða líka gegnsæi í því er snýr að kostnaði nemendanna.

Ég tel að hér sé komið alveg að þeim mörkum að fara að velta fyrir sér hvenær menn eiga orðið rétt á að fá tekjuviðmiðið hækkað, þannig að það skerðist ekki, til að mæta þessum kostnaði sem er orðinn 1/3 af óskertum tekjum námsmanna, að því er mér sýnist.