132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:00]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Umræða um skólamál og stöðu menntamála hefur verið nokkuð áberandi við umræðu fjárlaga þetta árið og ekki síst við 3. umr. í dag. Í sjálfu sér hefur umræða um stöðu menntamála verið miklu meiri í samfélaginu á síðustu mánuðum og missirum en verið hefur um langt skeið og langt árabil. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Það eru mikil átök á mörgum sviðum menntamála, það er mikil tortryggni í skólasamfélaginu í garð stjórnvalda, það er langvarandi hallarekstur, bæði framhaldsskóla og háskóla, vegna ýmissa hluta eins og mikillar nemendafjölgunar og stærri árganga sem komið hafa inn í skólana auk eldra fólks sem hefur aftur hafið nám. Ég ætla að tæpa á þeim málum sem varða háskólastigið, stöðu menntunarmála, og háskólamenntunar úti á landi sérstaklega.

Fyrir nokkrum dögum barst svar hæstv. forsætisráðherra við ákaflega athyglisverðri fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um aldur og menntun á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Varpar það svar við fyrirspurninni nokkuð skýru ljósi á þau skil sem hafa orðið á milli menntunar og samsetningar að þessu leyti á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og sérstaklega hve brýnt er að efla aðgang að háskólamenntun úti á landi gegnum fjarnám og með ýmsum öðrum hætti. Margt ágætt hefur verið gert í þeim málum en ganga þarf miklu lengra og miklu vasklegar fram. Er staða fræðslunetanna og símenntunarstöðvanna eins og hún er í dag kannski besta dæmið um að þar hefur ekki verið gengið nógu langt og allt of hægt farið fram.

Um þau mál hefur nokkuð verið rætt og ekki að ósekju þar sem símenntunarstöðvarnar eiga sitt undir fjárlögum á hverju ári þó að þær heyri undir menntamálaráðuneytið. Og þrátt fyrir að fræðslu- og símenntunarstöðvarnar hafi starfað í meira en áratug búa þær enn við mikla óvissu í skipulagsmálum og formi. Þær eru sjálfseignarstofnanir og heyra eðli málsins samkvæmt undir menntamálaráðuneytið en eru ekki á föstum fjárlögum. Þeim hefur ekki verið settur starfsrammi af hálfu ráðuneytisins og framlög til þeirra eru án tillits til eðlis og umfangs þeirra verkefna sem miðstöðvarnar hafa með höndum og starfsumhverfis þeirra. Þannig er t.d. ekki tekið tillit til mismunandi landfræðilegra starfsaðstæðna, mismunandi fólksfjölda á starfssvæðum þeirra, hvaða hópi þær þjóna eða annars sem augljóslega skapar miðstöðvunum þó mismunandi grundvöll og aðstæður. Til að mynda hafa símenntunarstöðvarnar á Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi reiknað út að fjarnámsþjónusta þeirra er verðlögð á um 10 millj. kr. á ári sem er svipað og þær fá fyrir símenntunarþjónustuna frá hinu opinbera en fyrir fjarnámsþjónustuna fá þær ekki neitt, fá enga leiðréttingu á meðan hin formlegu háskólasetur fyrir vestan og norðan fá töluvert hærri framlög vegna skilgreiningar á starfseminni.

Þessu er mikilvægt að breyta og það er mikilvægt að efla aðgengi að háskólamenntun úti á landi. Það gefur augaleið að verði aðgengi að háskólamenntun og frekari menntun ekki aukið úti á landi heldur fólksstraumurinn af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið áfram. Fólk flytur, tekur sig einfaldlega upp til þess að komast að menntunartækifærunum.

Annað sem ég vildi nefna er staða háskólastigsins. Það hefur opinberast á síðustu vikum með miklu skýrari hætti en nokkurn tíma áður hve staða þess er bágborin ef við berum hana saman við stöðuna annars staðar í Evrópu og í þeim samanburðarlöndum vestrænum sem við viljum bera okkur saman við og styðjast við. Á vordögum kom til að mynda fram úttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu Háskóla Íslands, mjög vönduð og mjög afdráttarlaus úttekt. Þar er að finna erlendan samanburð á fjármögnun háskóla en hvað varðar fjármögnun háskólastigsins þá er það umræða sem hefur kannski ekki verið tekin hér eða mörkuð skýr stefna og þarf að ráðast í mikla stefnumótunarvinnu þar. Í úttektinni kemur fram að Háskóli Íslands er hvað varðar sambærilega skóla næstverst settur allra skóla í Evrópu, einungis háskólinn í Króatíu er verr settur, og þarna munar mjög miklu. Fyrir árið 2003 voru t.d. tekjur háskólans á hvern nemanda margfalt lægri en sambærilegra skóla bæði á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, eins og rakið er mjög prýðilega í skýrslunni. Og eins það að framangreindar niðurstöður sem raktar eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar um tekjur háskóla eiga sér nokkuð skýra samsvörun í tölum frá OECD, sem mikið hefur verið rætt um. Þar kemur fram að Íslendingar vörðu um 1,14% af vergri landsframleiðslu til háskólastigsins árið 2004 á meðan hinar Norðurlandaþjóðirnar vörðu allar hærra hlutfalli til þessara mála. Hlutfallið er t.d. 1,3% í Noregi, 1,3% í Svíþjóð og Finnlandi og 1,8% í Danmörku.

Ef við berum saman aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar við aldurssamsetningu annarra Norðurlandaþjóða ættum við að vera töluvert langt fyrir ofan þær allar í þessum samanburði. Munurinn er sérstaklega áberandi þegar litið er til útgjalda þeirra ríkja sem verja mestu til háskóla sem eru Bandaríkjamenn, sem verja tæpum 3%, 2,8–2,9% af vergri landsframleiðslu til háskóla og svo Kanadamenn sem verja 2,5%. Að meðaltali verja ríki OECD um 1,5% af vergri þjóðarframleiðslu til háskólastigsins. Þetta er langt fyrir ofan þær tölur sem við þekkjum á Íslandi og við eigum mjög langt í land með að ná því, sérstaklega þegar staðan er skoðuð út frá aldurssamsetningu þjóðarinnar og því hve fáir eru með háskólamenntun á íslenskum vinnumarkaði, 11% þeirra sem eru á vinnumarkaði á landsbyggðinni og rúm 20% á höfuðborgarsvæðinu, 22%. Það er mjög lágt hlutfall miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við og viljum ná og teljum nauðsynlegt að halda í við.

Þá verður að nefna framlög ríkisháskólanna til rannsókna sem þarf að auka verulega og sérstaklega þegar skoðuð er fjölgun nemenda í framhaldsnámi en árið 1990 voru framhaldsnemendur við Háskóla Íslands sex talsins. Árið 1997, sjö árum seinna, voru þeir 200 og tæplega 500 árið 2000, sem er gríðarleg fjölgun, en árið 2004 eru þeir orðnir 1.200, þar af 107 í doktorsnámi. Þetta er sprenging nemendafjölda sem þarf að fylgja vel eftir, enda stunduðu ákaflega fáir framhaldsnám við íslenska háskóla áður en þetta kom til. Í nokkuð merkri brautskráningarræðu í október 2004 fjallaði Páll Skúlason, fyrrverandi háskólarektor, ítarlega um þessa þróun sem hann kallaði menntabyltingu sem gengi yfir mannkynið og ætti sér enga líka í sögunni. Nefndi hann að fyrir fáeinum áratugum hafi um 5% atvinnubærra manna verið með háskólamenntun en rektorinn fyrrverandi fullyrðir að þeir verði a.m.k. 50% eftir nokkra áratugi. Í það stefnir hjá þeim þjóðum sem búa næst okkur þannig að við þurfum að bæta verulega í framlög okkar til háskólamála til að mæta þessum málaflokki með myndarskap, sérstaklega af því að háskólarnir eru í miklum þrengingum. Háskólinn á Akureyri hefur verið töluvert mikið til umræðu í dag en hann gengur í gegnum miklar þrengingar núna. Skólanum hefur verið hampað á undanförnum árum og áratugum sem mikils afreks í byggðamálum og undir það má vissulega taka. Skólinn er glæsileg stofnun og fátt hefur sjálfsagt tekist betur sem tengja má einhvers konar byggðaaðgerðum, enda var með tilkomu hans byggð upp mjög öflug menntastofnun norðan heiða sem hefur mikil margfeldisáhrif inn í samfélagið, eins og við sjáum með öðrum hætti í Viðskiptaháskólanum á Bifröst sem hefur haft feikileg áhrif á því svæði sem hann er staðsettur á í Borgarfirðinum.

Rekstur opinberu háskólanna er í járnum, sérstaklega þegar litið er til framtíðarfjármögnunar þeirra og þeirrar óvissu sem þeir búa við innan lands og utan hvað varðar samkeppni við aðra skóla. Þeir hafa mætt miklu skilningsleysi af hálfu stjórnvalda eins og felst í því að hæstv. menntamálaráðherra fullyrðir að Háskólinn á Akureyri sé einungis að hagræða og endurskipuleggja sig en gangi ekki í gegnum neinar þrengingar á sama tíma og mikil ólga er í bæjarstjórn Akureyrar og hjá þeim sem reka skólann yfir þeirri stöðu sem hann er í, enda hefur skólinn lokað tveimur deilda sinna.

Niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar var mjög afdráttarlaus. Annaðhvort fari skólarnir í gegnum harkalegan niðurskurð, eins og Háskólinn á Akureyri gerir núna, eða beiti verulegum fjöldatakmörkunum, eins og þeir hafa verið að gera í auknum mæli á síðustu árum með því að nýta ekki undanþáguheimild til að taka þá nemendur inn í skólana sem ekki eru með formleg stúdentspróf. Háskóli Íslands er einfaldlega hættur að nota þessa heimild og Háskólinn á Akureyri sem var mjög framarlega í því, tók inn mörg hundruð nemendur á ári sem voru ekki með formleg stúdentspróf og var ákaflega vel gert af skólanum, enda fráleitt í sjálfu sér að nota það sem eina mælikvarðann þegar um er að ræða fullorðið fólk með margvíslega starfsreynslu aðra. Nú hefur verið tekið fram fyrir hendurnar á háskólanum hvað þetta varðar og skólinn rifar seglin vegna fjárskorts af hálfu stjórnvalda og bregst við með því að skera mjög harkalega niður og leggja niður tvær deilda sinna.

Kennaraháskóli Íslands vísar frá tveimur af hverjum þremur nemendum sem sækja um inngöngu í grunnnám í Kennaraháskólanum. Háskólarnir eru því sveltir að mörgu leyti til vondra verka og neyðarúrræða í rekstri sínum. Í þessu samhengi vakti ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrr í haust töluverða athygli, að nemendur í opinberum háskólum ættu að taka verulega aukinn þátt í rekstri skólanna, þ.e. að skólarnir ættu að taka upp skólagjöld í einhverjum mæli til að mæta fjárhagsvandanum. Þegar þetta var sett í samhengi við niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar og annarra úttekta á háskólastiginu, í opinberu háskólunum, þá kvað þar við mjög afdráttarlausan tón, en hæstv. menntamálaráðherra hefur fullyrt að þessu eigi ekki að fylgja eftir og það sé a.m.k. ekki stefnumið núverandi ríkisstjórnar að hækka skólagjöld við opinbera háskóla eða taka þau upp sem fjármögnun í auknum mæli. Ef íslensk stjórnvöld verðu svipuðu hlutfalli af landsframleiðslu sinni og aðrar Norðurlandaþjóðir gera fengi háskólastigið 4–8 milljörðum kr. meira á ári en það gerir núna en þær þjóðir verja, eins og ég sagði áðan, 35–80% meira af landsframleiðslunni til háskólastigsins en við gerum.

Kjarni málsins hvað varðar fjármögnun opinberu skólanna er að mínu mati sá að það verður að taka af skarið með það hvort skólarnir eigi til framtíðar að fá aukin framlög sem skipta máli og lyfta grunninum þannig að þeir standist þennan samanburð eða þeir fái heimild til skólagjalda til að fjármagna starfsemi sína. En áður en aukin skólagjöld koma til greina að mínu mati verður að fara fram ítarleg stefnumótun og úttekt á málefnum háskólastigsins þar sem áhrif skólagjalda á starfsemi skólanna og skólasókn eru vegin og metin t.d. út frá jafnrétti til náms, hlutverki lánasjóðsins, fjármögnun skólastigsins og skólasókn. Og það er mjög athyglisvert að skoða bæði skólastigin þegar litið er til þess hve sárlega skortir skýra stefnumörkun í þessum málum.

Eins og ég nefndi fyrr í dag í andsvari við hæstv. menntamálaráðherra innheimtir Kvikmyndaskóli Íslands, sem er lítill og góður sérskóli á framhaldsstigi, hann útskrifar stúdenta, 1,2 millj. kr. á ári af nemendum sínum í skólagjöld. Meðalaldur nemenda er líklega í kringum 20 ár þannig að þar eru 18, 19 og 20 ára framhaldsskólakrakkar að borga 1,2 milljónir á ári í skólagjöld. Lánasjóðurinn lánar fyrir þessu þannig að það má segja að þetta sé að hálfu leyti niðurgreitt aftur af hinu opinbera í gegnum lánasjóðinn en um það hefur aldrei verið tekin nein stefnumótandi umræða um hvort fara eigi þessar leiðir við að fjármagna skólastigin, að ég tali nú ekki um framhaldsskólana. Þetta gerist í einhvers konar kyrrþey, af því að ég hafði aldrei heyrt af því að þessi skóli innheimti 1,2 milljónir í skólagjöld á ári af nemendum sínum á framhaldsskólastigi fyrr en við hv. þm. Katrín Júlíusdóttir heimsóttum þennan merkilega og skemmtilega skóla á dögunum. En ég held að útilokað sé að halda því fram að nemendur Kvikmyndaskóla Íslands búi við jafnrétti til náms í framhaldsskóla samanborið við aðra nemendur á Íslandi í framhaldsskólum sem borga ekki skólagjöld. Þetta er í rauninni dæmi um stöðuna í menntakerfinu. Það er vissulega heilmikil gerjun og það er margt gott að gerast en það skortir skýra stefnumótun, sérstaklega um fjármögnun skólastigsins.

Skólinn sem ég nefndi áðan, Kvikmyndaskóli Íslands, er lítill skóli með fáa nemendur og það er ekki verið að tala um háar upphæðir þó að hið opinbera mæti kostnaði við skólann í auknari mæli þannig að skólagjöld væru miklum mun lægri. En það er mjög athyglisvert dæmi um stefnuleysið að í einum skóla á framhaldsskólastigi — ég ítreka að við erum ekki að tala um háskóla — skuli eini samjöfnuðurinn um gjaldtöku í íslenska menntakerfinu vera MBA-námið í endurmenntunardeild Háskóla Íslands. Þar eru innheimt svona há skólagjöld, hátt í 2 millj. kr. á ári, á þeim forsendum að þar sé um að ræða endurmenntunarnám sem er mjög dýrt og yrði ekki kennt nema svo væri að staðið. Ég er alveg sammála því að það er ekkert athugavert við það í sjálfu sér. Þar er um að ræða allt annan hóp. Þar er um að ræða MBA-nám sem lýtur allt öðrum lögmálum en nám í framhaldsskóla, nám sem útskrifar stúdenta. Þarna eru nemendur að borga 2,5 millj. kr. fyrir nám í tvo vetur í íslenskum skóla á framhaldsskólastigi. Það er verulega há upphæð og vissulega er ekki við þá sem reka skólana að sakast. Þeir fara þær leiðir sem þeim eru færar og þær leiðir sem þeim eru gerðar færar af stjórnvöldum til að reka sinn skóla. Metnaðarfullt hugsjónastarf liggur að baki skólanum og mun skila íslenskri fjölmiðlun, íslenskri kvikmyndagerð, íslenskri sjónvarpsþáttagerð o.s.frv. miklum ábata þegar fram líða stundir. Þarna stendur til að kenna mjög margvísleg fræði sem falla undir kvikmyndagerð, handritagerð o.s.frv. — frábær skóli, einstakur í sinni röð og að honum á að hlúa og undir hann að byggja. Það hlýtur að vera hægt að koma til móts við núverandi og væntanlega nemendur í skólanum til framtíðar þannig að þeir séu ekki að borga á þriðju millj. kr. fyrir tveggja vetra nám í skólanum. Það er í sjálfu sér alveg fráleitt að þetta skuli vera svona en þetta gerist án þess að um það sé rætt og engin sambærileg dæmi finnist um skólagjaldtöku á Íslandi, ekki í grunnnámi, ekki á framhaldsskólastigi og ekki á háskólastigi.

Að mínu mati er það grundvallaratriði að til staðar sé menntunarferli frá leikskóla og upp í gegnum háskóla þar sem jafnrétti til náms er tryggt, burt séð frá bakgrunni hvers og eins. Það má segja að vegið sé að því þegar menntun er stofnað í það mikinn vanda að að lokum verður krafan um há skólagjöld eina leiðin út úr ógöngunum — að skólanum séu ekki aðrar leiðir færar til að standa þannig að rekstri sínum á skólum að gæði skólanna raskist ekki verulega. Í Evrópuúttektinni á gæðum og fjármögnum Háskóla Íslands á dögunum kom í ljós að gæði Háskóla Íslands eru í sjálfu sér mjög mikil. Forustumaður Evrópuúttektarinnar sagði það hreint og klárt kraftaverk hve skólinn væri góður og hve gæðastandardinn er hár miðað við það hvað hann býr við lág fjárframlög og mikið fjársvelti.

Þessar tvær úttektir, önnur kom fram á vormánuðum og hin nú á haustdögum, eru mjög athyglisverðar. Enginn hefur borið brigður á að þessar úttektir séu mjög vandaðar og þær hljóta að liggja til grundvallar allri umræðu um framtíð opinberu háskólanna. Einkareknu háskólarnir fá svipuð framlög á hvern nemanda og opinberu háskólarnir en auk þess heimild til töluverðrar gjaldtöku ofan á það þannig að þeir njóta þess umfram opinberu háskólana sem fá aftur á móti hærri framlög til rannsókna o.s.frv. En það er erfitt að bera þetta saman. Það er erfitt að bera saman Háskóla Íslands, sem er breiður fræðaskóli og rannsóknarháskóli, og lítinn skóla á háskólastigi sem kannski kennir tvær til þrjár greinar. Það er ólíku saman að jafna og í sjálfu sér er samanburðurinn oft mjög ósanngjarn.

Þetta vildi ég segja í þessari umræðu um fjárlög þar sem ekki er tekið tillit til þess bráðavanda sem uppi er hjá opinberu háskólunum að neinu vitlegu marki eða með þeim hætti að það leysi vandann eða þeim sés mörkuð einhver skýr stefna til framtíðar.

Þá ætla ég einnig að nefna stöðuna í framhaldsskólunum. Eins og nefnt hefur verið fyrr í umræðunni kom í gær fram mjög afdráttarlaus og hörð ályktun frá stjórn Félags framhaldsskólakennara þar sem hún gagnrýnir harðlega áætlanir um fjárveitingar til framhaldsskólanna sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Nú segir stjórn Félags framhaldsskólakennara að fjárveitingar séu enn á ný stórlega vanáætlaðar og á sama tíma hafi stjórnvöld uppi áform um að stytta nám til stúdentsprófs og þetta eigi sér stað þegar æ fleiri sæki um inngöngu í framhaldsskólann. Í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Ekki er hægt að skilja þessi áform öðruvísi en sem ásetning um að koma böndum á fjölda framhaldsskólanema til að spara í rekstri skólanna. Stjórnin segir að aðgerðir sem leiða til þess að sumir komist í framhaldsskólann en aðrir ekki séu rof á þeirri samfélagssátt sem ríkt hafi um áratuga skeið á Íslandi um menntakerfið og lykilhlutverk menntakerfisins við jöfnun lífskjara. Stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að vanáætla gróflega enn og aftur árvissar fjárveitingar til framhaldsskólanna hvað varðar nemendafjölda og heildarfjárþörf.“

Samkvæmt þessu búa skólarnir við stöðuga vanáætlun — það kemur líka í ljós þegar staða þeirra er skoðuð — og vandanum í áætlanagerðinni er ekki mætt. Þar er gróflega vanáætlað og brugðist við með því að sækja aukafjárveitingar í fjáraukalög sem hrökkva yfirleitt hvergi til enda nemur uppsafnaður halli skólanna hundruðum milljóna. Greinargerð Ríkisendurskoðunar á dögunum fjallaði um stöðu níu framhaldsskóla, fimm eru á landsbyggðinni og fjórir á höfuðborgarsvæðinu, og þar kom fram að hallarekstur skólanna er á bilinu 4% til 35% af fjárveitingum til þeirra. Það er því ástæða til að taka einnig fjármögnun framhaldsskólastigsins til endurskoðunar og heildarumræðu. Mikill munur er á aðstöðu nemenda og aðgengi eftir því um hvaða menntun er að ræða. Ástæða er til að ræða það ítarlega, ekki síst þar sem nemendafjölgunin hefur verið um 10% síðustu fjögur árin. Árgangarnir sem koma inn í skólann eru stórir og um allan hinn vestræna heim hefur eldra fólk verið að sækja sér aukna menntun.

Virðulegi forseti. Víða er pottur brotinn í menntakerfinu og fyrst og fremst þarf að eiga sér stað víðtæk umræða um það hvernig menntakerfi við viljum byggja upp, hvort sem er í leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða á háskólastigi — hvernig við viljum fjármagna þessi skólastig. Við erum t.d., eins og ég nefndi áðan, að fjármagna einn framhaldsskóla að stórum hluta með skólagjöldum upp á 1,2 millj. kr. á ári. Fram að þessu hefur verið nokkur pólitísk sátt um að opinberu háskólarnir fjármagni ekki starfsemi sína nema að mjög litlu leyti með skólagjöldum. Innheimt eru einhvers konar skráningargjöld sem eiga að standa undir skráningu og verulega litlum hluta af starfsemi skólanna. En fram að þessu hefur verið sátt um að skólagjöld verði ekki hækkuð til að standa undir rekstri og fjárþörf skólanna. Þessu þarf að marka mjög skýra stefnu alveg frá grunni. Sú stefnumótun þarf að fara fram áður en til greina kemur að nota skólagjöld sem fjármögnun og það þarf líka klárlega að hækka grunninn til skólanna áður en farið er að skoða slíkt.