139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

kosning til stjórnlagaþings -- fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[11:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra kærlega fyrir undirtektirnar við þeirri málaleitan minni að koma þessu frumvarpi á dagskrá. Ég fagna því vegna þess að skoðanir okkar í þessu máli fara algjörlega saman. (Utanrrh.: Í mörgum …) Við viljum tryggja mannréttindi fólks við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings og eins og lögin eru núna úr garði gerð bera blindir og sömuleiðis hreyfihamlaðir og fatlaðir skarðan hlut frá borði í því efni.

Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir undirtektirnar. Ég held að þetta mál sé dæmi um það hvernig þingið getur unnið saman þvert á flokka ef vilji er fyrir hendi.