139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög hættuleg þróun hjá hv. þingmanni að það gerist hér dag eftir dag að hún kemur upp og er sammála mér og ber jafnvel lof á ríkisstjórnina í einstökum málum. (Gripið fram í.)

Hins vegar er ég algerlega ósammála hv. þingmanni varðandi dæmið sem hún nefndi um raforkutilskipunina. Það var einfaldlega þannig að þáverandi iðnaðarráðherra, sem var ekki sá sem hér stendur, tók meðvitaða ákvörðun um að beita sér ekki fyrir því að nýta möguleikana til að fá undanþágu eins og önnur eyríki og smáríki fengu. (Gripið fram í.) Þetta höfum við margsinnis farið yfir í þessum sölum. Það var einfaldlega þannig að sú ríkisstjórn sem þá sat tók um það ákvörðun að leita ekki eftir því að Ísland fengi þá undanþágu sem það hefði auðveldlega getað fengið. (Gripið fram í.) Öll rök hnigu að því að ef eftir því hefði verið leitað hefði Ísland fengið undanþáguna vegna þess að við uppfylltum einfaldlega öll skilyrði. Ég fór mörgum sinnum í gegnum þetta með starfsmönnum mínum þegar ég síðar tók við embætti iðnaðarráðherra þannig að ég er algerlega ósammála hv. þingmanni um það.