140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innblásna ræðu. Ég kom hingað til að ræða gagnrýni hv. þingmanns á lækkun frádráttar vegna séreignarlífeyrissparnaðar.

Í nefndaráliti hv. þingmanns er talað um að þessi lækkun muni skaða lífeyrissjóðskerfið og stöðu ríkissjóðs til lengri tíma litið. Ég er ekki sammála þessu mati hv. þingmanns í ljósi þess að í dag er ávöxtun lífeyrissjóðanna ekki nema um helmingur þess sem hún þyrfti að vera til þess að lífeyrissjóðirnir geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrisþegum. Jafnframt er staðan sú að vextir sem ríkissjóður greiðir af lánum sínum eru hærri en ávöxtun á því fé sem ríkið setur inn í lífeyrissjóðina með því að fresta skattgreiðslu þar til að útgreiðslu kemur.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sömu skoðunar og ég, að ef einhvern tímann eigi að lækka þennan frádrátt þá sé það einmitt núna vegna þess að sjóðsmyndunarkerfið ávaxtar ekki fé ríkissjóðs nóg miðað við það sem ríkissjóður þarf að greiða í vexti af lánum sem hann tekur.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það að í svo óstöðugu hagkerfi eins og því íslenska sé mikilvægt að hafa blandað lífeyrissjóðskerfi, þ.e. annars vegar sjóðsmyndunarkerfi og hins vegar gegnumstreymiskerfi.